Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég varð ekki var við það að hv. þm. Eiður Guðnason hefði kvatt sér hljóðs á undan mér. Hann er vanur að láta heyra í sér hér í deildinni þannig að það hefði ekki átt að fara fram hjá neinum, en ég biðst ekki afsökunar á því að tala á undan honum vegna þess að hér er á ferðinni mál sem er kannski miklu stærra en það hvort við sitjum hér fram á kvöld til þess að ræða stjórnarfrumvörp. Ég held nefnilega að hér sé um að ræða raunverulega það hvort ríkir þingræði á Íslandi í dag eða ekki. Það er áberandi í framkomu stjórnarliðanna og ráðherranna í vetur hvernig þeir hafa vanvirt Alþingi þegar það hentar þeim, hvernig þeir hafa vísvitandi verið fjarverandi umræður um alvarleg mál og hvernig þeir yfirleitt hafa farið með mjög þýðingarmikil atriði með þeim hætti að það hefur ekki farið fram hjá okkur hv. þm., sem leyfum okkur að vera í andstöðu við þá, að það er ekki meiningin að hið háa Alþingi Íslendinga taki yfirleitt þátt í því hvernig þessu landi verður stjórnað meðan núverandi ríkisstjórn situr að völdum.
    Ég vil, hæstv. forseti, jafnframt geta þess að það er gersamlega óviðunandi að vera tilkynnt það kl. 11 fyrir hádegi að hér eigi fundur að hefjast kl. 13.30. Þannig var staðið að fundarboði alla vega gagnvart þeim sem er í ræðustól núna. Ég óska eftir því að framvegis verði boðað til funda ef það er utan við venjulegan fundartíma með hið minnsta sólarhrings fyrirvara. Það vill svo til að það eru fleiri en stjórnarþingmenn eða hæstv. ráðherrar sem eru við störf, bæði hér í þágu þingsins og annars staðar, og það er lágmarkskurteisi svo ég segi ekki skylda við þá þingmenn að þeir fái að vita ef hér er boðað til fundar á afbrigðilegum tíma eins og nú er gert.
    Ég vil, virðulegi forseti, taka undir orð hv. þm. Halldórs Blöndals og Danfríðar Skarphéðinsdóttur um að það er ámælisvert --- það er meira en ámælisvert, það er vítavert, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa notað þau vinnubrögð, sem nú eru að koma í ljós, að undirbúa í vetur meiri háttar frumvörp í fjölda mála og koma svo með þessi frumvörp á síðustu vikum þingsins. Hér hefur verið sagt af einum hv. þm. að það standi til að ljúka störfum þingsins 6. maí. Það þýðir á mæltu máli að það á að gefa okkur þingmönnum 4--5--6 daga til að fjalla um þessi frumvörp hér í deild. Það þýðir að það á að renna þessu í gegn með hraði í nefndum deildarinnar. Þetta er eins óþingræðislegt og nokkuð getur verið.
    Hér var nefnt áðan --- ég hafði nú ekki talið þessi frumvörp --- að það væri um að ræða 30 ný frumvörp. Ég vil þess vegna segja það og endurtek það að hér er um mjög óþingræðislegar vinnuaðferðir að ræða. Hér er beinlínis stefnt að því að takmarka að umræður geti farið fram um þessi mál. Það er stefnt að því að ljúka þessum málum án þess að þingmenn geti fjallað um þessi mál með viðeigandi hætti. Þetta ber vott um ofríki. Og það ber vott um meira en ofríki. Hér er beinlínis unnið samkvæmt einræðislegum stjórnarháttum. Þetta hefur ekki gerst í sögu þings og þjóðar í áratugi. Það má fara langt

aftur í tímann til að finna vinnubrögð sem eru viðlíka þeim sem hér er núna verið að taka upp.
    Ég ætla ekki að rifja upp hvernig málum var háttað á þeim tíma. Það var á þeim tíma þegar Framsfl. blómstraði undir forustu mjög greinds manns, svo að ekki sé meira sagt, sem réði lögum og lofum á áratugnum 1920--1930 og gaf tóninn og þurfti ekki að tala við þing né þjóð heldur ákvað uppi í stjórnarráði hvernig skyldi stjórnað. Nú er verið að taka upp sömu stjórnarhætti, enda verða menn varir við það úti í þjóðlífinu hvernig ráðherrar beita valdi sínu. Það fer ekki fram hjá þjóðinni. Það fer ekki fram hjá fólki hvernig komið er nú fram við eina ákveðna kvenpersónu í Reykjavík. Mér finnst því miður vanta dálítið hin beittu sverð kvennalistakvenna til að taka upp málstað --- ( GA: Hin beittu sverð!) hin beittu sverð já, kvennalistakvenna, þau eru oft beitt --- til að taka upp málstað þessarar konu sem hefur greinilega verið beitt miklu ranglæti og ofríki af hálfu eins ráðherrans. (Gripið fram í.) Það tekur hver til sín sem vill, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Ég vona að þú komir hér og takir til máls og ræðir um framkomu ákveðins ráðherra við skólastjóra í Reykjavík. ( GA: Ég hef aldrei borið sverð í þetta hús.) Ekki vopn kannski í eiginlegri merkingu þess orðs. ( HBl: Orðsins hjör.)
    En ég segi, virðulegi forseti: Það getur verið að hv. stjórnarþingmenn, sem stjórna þjóðinni með naumum meiri hluta, séu mjög ánægðir yfir því, það getur verið að þeir gleðjist yfir því að stjórnarandstæðingar skuli leyfa sér að standa upp og andmæla þessum vinnubrögðum. Það er ágætt að lifa í skjóli þess valds sem þeir hafa enn á Alþingi Íslendinga. En ég segi við þessa ágætu hv. þm.: Þessi vinnubrögð munu hefna sín og þau munu hefna sín grimmilega. Fólkið í landinu mun rísa upp gegn þeim herrum sem tíðka og iðka slíka valdníðslu og misþyrmingu á þingræðislegu valdi eins og hér er viðhaft.
    Ég ætla ekki að ræða um hvernig einstakir ráðherrar og sumir stjórnarþingmenn tala niður til fólksins. Það er kapítuli út af fyrir sig og væri þess virði að ræða á hinu háa Alþingi. En ég leyfi mér, virðulegi
forseti, að fordæma þessi vondu vinnubrögð.
    Þá væri full ástæða til að ræða um hina harðneskjulegu framkomu ýmissa ráðamanna þjóðarinnar, en ég skal sleppa því að sinni. Ég bíð eftir því að hv. stjórnarstuðningsmenn standi upp og verji sína vondu stöðu. En það snýr ekki bara að einhverjum stjórnarandstæðingum á hinu háa Alþingi hvernig stjórnarsinnar hér haga sér. Þetta snýr að þjóðinni allri. Fólkið í landinu á þá kröfu á hendur þinginu að hér sé fjallað um mál með þeim hætti að það sé hægt að afgreiða þau viðunandi þannig að þingmenn sem og aðrir kunnáttumenn sem við viljum kveðja til geti fjallað um þau frumvörp m.a. sem hér hafa verið fram lögð, auk fjölda annarra mála sem hafa ekki fengið þinglega meðferð í allan vetur.
    Að lokum, virðulegi forseti, í sambandi við athugasemdir við þingsköp sem eru fyrir neðan allar

hellur, vil ég vekja athygli á því að á sama tíma sem verið er að demba inn tugum stjórnarfrumvarpa hefur atvinnuástand í landinu hríðversnað. Hér eru nú 2500 atvinnuleysingjar og þeim fjölgar dag frá degi. Erfiðleikar fyrirtækja í atvinnulífinu aukast og verið er að undirrita samninga af hálfu ríkisvaldsins sem fela í sér falskar kjarabætur. Á sama tíma sem hæstv. fjmrh. semur um svokallaðar kjarabætur til opinberra starfsmanna kemur upp annar hæstv. ráðherra og lýsir yfir að þessar kjarabætur verði teknar aftur strax þegar hann fær því við komið. En til þess þarf hann líklegast að koma þinginu heim. Það þarf að koma þinginu burt til að taka þær kjarabætur frá fólkinu sem verið er að undirrita þessa dagana með bráðabirgðalögum eftir að þing er farið heim, eftir 6. maí ef því lýkur þá.
    Nei, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að koma svona fram, hvorki gagnvart hinu háa Alþingi né fólkinu í landinu, eins og hv. stjórnarþingmenn eru að gera þessa dagana og hafa gert undanfarnar vikur. Þessi hópur er allt of ósamstæður fyrir utan þá ofbeldistilhneigingu sem hefur orðið vart við hjá mörgum hæstv. ráðherrum til þess að það sé viðunandi að þeir sitji að völdum á Íslandi öllu lengur. Þetta er ósamstæður hópur, þessir hæstv. ráðherrar. Þeir eru yfirlýsingaglaðir og þeir hafa framkallað mikla óvissu í íslensku stjórnarfari. Fólk býr nú við mun meira öryggisleysi en það hefur átt við að búa í fjölda ára. Það er mikill ótti hjá fólki um afkomu sína og atvinnu. Þessi hæstv. ríkisstjórn lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig fer fyrir fólkinu í landinu. Völdin eru þessum mönnum fyrir öllu. Jafnvel formenn einstakra stjórnmálaflokka láta sig hafa að það sé traðkað á saklausu fólki í þeirra eigin flokkum í skjóli valdsins og sitja áfram í ríkisstjórn.