Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Mér er sagt, sagði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að Alþingi eigi að ljúka 6. maí. ( GHG: Það var sagt, sagði ég.) Hv. þm. sagði í þessum ræðustól: Mér er sagt. ( GHG: Það var sagt af einum þingmanni.) ( GA: Hann sagði: Einn þingmanna sagði.) Hvað um það, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Ég heyrði þín orð þannig. En ég vek athygli hv. þm. á því að á haustdögum var lögð í pósthólf allra þingmanna starfsáætlun Alþingis 1988--1989 þar sem stendur prentað að síðasti fundardagur Alþingis sé laugardagurinn 6. maí. Það verður að gera þá kröfu til hv. þm. að þeir fylgist með og að þeir lesi þau plögg sem þeim berast frá forsetum þingsins. Það hefur hv. þm. Guðmundur Garðarsson ekki gert. ( GHG: Er farið eftir starfsáætluninni?) Nú vildi ég spyrja forseta ef hann gæti með sinni háttvísi og hæversku róað hv. þm. hér þannig að ræðumaður fengi frið til að tala. --- Það hefur verið farið eftir þessari starfsáætlun í meginatriðum. En það var líka ljóst þegar hún var sett að það væri ekkert naglfast eða fullvíst að þingi gæti lokið 6. maí. Þetta heitir starfsáætlun. Það getur vel verið að hún breytist eins og allar áætlanir hafa tilhneigingu til að gera. En þetta ber vott um að hv. þm. hefur ekki fylgst með þegar hann segir: Sagt er eða mér er sagt. Þetta hefði hann getað lesið ef hann hefði fylgst með.
    En ég verð líka, herra forseti, að lýsa alveg sérstakri furðu á því orðbragði sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson viðhafði úr þessum ræðustól. Ég vil bara nefna örfá dæmi. Hann talaði um valdníðslu, hann talaði um misþyrmingu, hann talaði um að hefna sín grimmilega, hann talaði um ofbeldistilhneigingar, hann talaði um einræðislega stjórnarhætti. ( GHG: Vill ekki hv. þm. að tala um sjafnarmál?) Ég er að ræða um þingsköp, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, og ég hef hugsað mér að lúta þeim reglum sem þingmenn eiga að lúta í því tilliti. ( GHG: Ég var að tala um sjafnarmál.) Það væri ágætt ef hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson gæti svo stillt í hóf geði sínu og skapsmunum að hann leyfði ræðumanni að tala.
    Ég hef vitnað til nokkurra ummæla úr máli hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar þegar hann talar um vinnubrögð í þinginu þessa síðustu daga. Það er vissulega rétt að það hefur komið fram mikið af þingmálum undanfarna daga. En þau mál eru ekki öll jafnstór og þau mál þurfa ekki öll jafnmikla eða tímafreka athugun. Það var sagt hér að það hefðu verið lögð fram 65 þingmál á mánudaginn, þar af hefðu verið 27 stjórnarfrumvörp. Ætli það sé ekki líklegt að málin frá stjórnarandstöðunni séu í meiri hluta. Og hvað sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson segir held ég að sú regla hafi verið til mikilla bóta sem sett var í þingsköp, m.a. að undirlagi fyrrv. forseta Sþ., hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að það voru sett tímamörk á framlagningu mála. Ég hygg að sú regla hafi verið mjög til bóta. Nú eru samkvæmt starfsáætlun Alþingis

þrjár eða fjórar vikur til þingloka, tæpar fjórar vikur til þingloka, en nú er runninn út frestur til að leggja fram ný mál. Mér þykir margt benda til þess að þingi ljúki ekki fyrr en a.m.k. viku seinna en þessi áætlun gerir ráð fyrir.
    Auðvitað er okkur öllum sem styðjum þessa ríkisstjórn líka ljóst að ekki eru öll þau frumvörp sem fram eru lögð núna ætluð til samþykktar í vor. Það er bara eins og venja hefur verið í mörg undanfarin ár að frumvörp eru lögð fram til sýningar.
    En það vil ég segja við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson og vona nú að hann gefi sér tíma til að hlýða á umræður hér þó að ég noti ekki sama orðbragð og hann gerði hér áðan til þess að vekja athygli á máli mínu: Ég man þá tíð og það er ekki mjög langt síðan að menntmrh. Sjálfstfl. lagði fram frv. til breytinga á lögum um Háskóla Íslands í þessari hv. deild tveimur eða þremur dögum fyrir þinglausnir og ætlaðist til að það mál næði fram að ganga. Þetta var þáv. hæstv. menntmrh., hv. núv. þm. Ragnhildur Helgadóttir. Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var. Ég hef ekki haft tíma til að fletta upp í þingtíðindum. En mig minnir að hún hafi fengið þetta mál samþykkt, m.a. fyrir velvild stjórnarandstöðunnar. Skal ég þó ekki um það fullyrða. Nú er verið að leggja fram stjórnarfrumvörp þremur eða fjórum vikum áður en þingi lýkur. Var þetta ekki valdníðsla? Voru þetta ekki ofbeldisvinnubrögð? Ég vil alls ekki nefna það þeim nöfnum. En þetta voru hins vegar ekki mjög góð vinnubrögð. Og það vil ég ítreka við hv. þm. að þetta var ekkert einsdæmi áður en sú regla var sett að setja tímatakmörkun á framlagningu mála og ég held að hér hafi verið vel og eðlilega að málum staðið.
    Ég ætla líka að segja það að í þessari hv. deild hefur verið tekið fullt tillit til óska stjórnarandstöðunnar um vinnubrögð. Ég skal fræða hv. þm. Guðmund H. Garðarsson á því að ég hef lítið annað gert í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar í vetur en að taka tillit til ýmissa óska hv. þm. Halldórs Blöndals. Samvinna við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson í þeirri nefnd hefur verið með miklum ágætum eins og á að vera. En hitt hefur hins vegar kostað ómældan tíma og mikla þolinmæði og það geta aðrir sem eiga sæti í þessari hv. nefnd áreiðanlega borið um að þar hefur allt verið gert sem unnt hefur verið til að koma til móts við óskir þessa hv. þm. sem stundum hafa
verið sanngjarnar en miklu oftar kannski á mörkum þess að mega kallast það. ( HBl: Þú ert ekki maður fyrir þessum orðum.) --- Nú bið ég hv. þm. Halldór Blöndal að hlusta en hann fer þá út úr deildinni og mun ég þá koma að því síðar.
    Það hefur tekist í þeirri nefnd svona yfirleitt, sérstaklega með samvinnu við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að hafa mjög gott samstarf um afgreiðslu mála og þannig á það auðvitað að vera. En svo langt er hægt að ganga í ósanngirni og ósvífni eins og við höfum upplifað í þessari hv. deild, t.d. síðast í gærkvöldi að hv. þm. Halldór Blöndal neitaði að við

fengjum að afgreiða tvö lítil mál nánast umræðulaust til nefndar. Það var fallist á þá kröfu hans. Hann hefur óskað eftir því að eitt ákveðið stjfrv. verði ekki rætt í dag. Það hefur verið orðið við þeirri kröfu. Ég veit satt að segja ekki hvar það er sem við stjórnarsinnar í þessari deild höfum sýnt ósanngirni eða stífni. Ég veit ekki betur en við höfum í einu og öllu reynt að koma til móts við óskir og hafa þetta allt í góðri samvinnu.
    Það kemur mér hins vegar á óvart þegar hv. þingflokksformenn tveir koma hér nú og bera sig illa undan vinnuálaginu í deildinni. Hv. þingflokksformaður Kvennalistans ræddi um frestun sem hefði orðið á afgreiðslu vegáætlunar. Hvers vegna varð frestun á afgreiðslu vegáætlunar í Sþ.? Hún varð vegna þess að Kvennalistinn efndi til umræðna utan dagskrár sem tóku mjög langan tíma, mjög einfalt mál. Ég held að sú regla hafi hiklaust verið mjög til góðs þegar hv. núv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson beitti sér fyrir því að það var sett í þingsköp að takmörk væru fyrir því hve seint mætti leggja fram ný mál á þinginu. Nú gerist það og þá koma óhjákvæmilega nokkuð mörg mál í einu og þá er kvartað undan því.
    Ég bið menn að hugleiða að þau stjórnarfrumvörp sem verið er að ræða um eru af mjög ólíkum toga. Hver ætlar t.d. að bera saman stjfrv. um brottfall ýmissa laga á sviði menntamála og frv. dómsmrh. um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds í héraði? Þau frumvörp sem hér er verið að fjalla um og eru nefnd undir einum hatti stjórnarfrumvörp eru auðvitað af gerólíkum toga og eru sum sáraeinföld og í rauninni lítil mál. ( HBl: Þessi frumvörp voru ekki lögð fram 10. apríl.) Það er verið að leggja þessi stjórnarfrumvörp fram. Þau hafa verið að koma úr prentun síðustu dagana.
    Ég verð satt að segja að segja það, herra forseti, að ég tek því ekkert þegjandi þegar við stjórnarsinnar erum borin þeim sökum að við séum ósamvinnuhæf nánast og erfitt með okkur að starfa vegna þess að ég tel okkur hafa tekið í nefndarstörfum og annars staðar fullt tillit til óska stjórnarandstöðunnar. Og ég segi það aftur og enn að þegar hv. þm. Halldór Blöndal beitti sér fyrir umræðum um þingsköp í gær og stöðvaði afgreiðslu tveggja mjög lítilla mála, að vísu var ég 1. flm. beggja málanna og kann það að skýra fyrir einhverjum einhvern hluta málsins, þá fundust mér þau vinnubrögð ekki bera vott um mikla sanngirni. En ég ítreka það aftur og enn að það hefur verið reynt að mæta hans óskum í hvívetna í þeirri nefnd sem ég hef áður um getið og það geta fleiri um borið.
    Ég sé ekkert óeðlilegt við það, herra forseti, þó að þess verði freistað að hafa fund kl. 18 í kvöld til kl. 19 svo sem oft er gert þegar kemur fram á veturinn og styttist til þinglausna. M.a. ef það mætti verða til þess að lokalotan yrði skemmri og ekki jafnmiklar annir í þinglokin held ég að það væri skynsamlegra að taka upp markvissari og skipulagðari vinnubrögð fyrr en gert hefur verið. En ég treysti forseta þessarar hv.

deildar og öðrum forsetum þingsins fyllilega til að skipuleggja þau vinnubrögð í samráði við formenn þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu þannig að það geti allt verið í góðu samkomulagi svo sem verið hefur hingað til.
    En það ætla ég að segja við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson að lokum að mér þykir miður að þurfa að hlusta á gífuryrði hans um vinnubrögð hér þegar við getum tekið til og nefnt og lesið upp úr þingtíðindum fjölmörg dæmi frá fjölmörgum ríkisstjórnum um að mál hafa verið miklu seinna á ferðinni og verið gerðar miklu meiri kröfur til stjórnarandstöðunnar um afgreiðslu mála en verið er að gera nú þegar mál eru lögð fram og það eru a.m.k. fjórar vikur til þingloka. Ég minni hv. þm. aftur á frv. um Háskóla Íslands sem menntmrh. hans flokks flutti á sínum tíma og ætlaðist til að við í stjórnarandstöðunni afgreiddum á tveimur dögum sem mig minnir nú raunar að við höfum gert þó ég skuli ekki fullyrða um það. Menn skyldu stundum hugsa svolítið áður en þeir tala, en það held ég að hv. þm. hefði betur gert að þessu sinni.