Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil láta rödd Borgfl. heyrast hér. Ég vil taka undir það, sem fram kom í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. og 6. þm. Vesturl., að gefa eigi þingmönnum rúman tíma til að kynna sér þau mál sem lögð hafa verið fram. Það er rétt, sem kom fram hjá þessum ágætu þingmönnum, að í gær og í dag er verið að taka fyrir mál sem lögð voru fram á mánudaginn og ég verð að viðurkenna sjálfur að ég hef ekki átt vegna annríkis tíma til að kynna mér þau nógu vel.
    Það er ein af þeim grundvallarreglum sem við verðum að viðhafa hér, eigum við að telja okkur til lýðræðisríkja, að gefa stjórnarandstöðunni góðan tíma til að kynna sér þau mál sem valdhafar leggja fram. Fái stjórnarandstaðan ekki þennan tíma getum við vart talist lýðræðisríki og Alþingi starfa á réttum grunni.
    Ég vil ekki eins og þeir þingmenn sem hér hafa komið upp gagnrýna sérstaklega forseta fyrir hans störf. Ég tel að hann hafi stjórnað með röggsemi og það sé ekkert undan honum sem slíkum að klaga. Hins vegar get ég tekið undir það, sem fram kom, að ríkisstjórnin og ráðherrarnir hafa ekki verið góð í því að fylgja sínum málum eftir.
    Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. að ríkisstjórnin hafði lagt fram 27 stjfrv. sl. mánudag, en alls hafa verið lögð fram 60 mál. Það skal tekið fram að margir stjórnarliðar eiga hlut í þessum 33 sem eru ekki stjórnarfrumvörp og það skal líka tekið fram að þar er meginhluti þáltill. svo að ekki verður því klínt á stjórnarandstöðuna að hún sé að tefja fyrir og sé á síðustu stundu með sín mál. Þar sem svo er komið sem hér hefur verið lýst vil ég mælast til þess að við tökum nú til handa og reynum að fara yfir þau mál sem á dagskránni eru, en ég vil mælast til þess að þingfundur verði ekki lengur í dag en til kl. 4 og það verði ekki hafist handa aftur kl. 18 eins og mér hefur skilist að hafi upphaflega staðið til. Alla vega mundi ég mæla gegn því.