Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja ekki alveg ný bóla að mál hlaupi í þykkildi síðustu sólarhringana sem þau eru að koma fram og þeir sem þingvanir eru hafa oft komist í hann krappan satt að segja og dálítið sérkennilegt að sjá ýmsa deildarmenn tala eins og hvítþvegna engla. Hér hefur það oft verið uppi að mál hafa komið býsna seint fram. Það hafa verið uppi um það óskir frá ráðherrum að þau væru afgreidd með miklum hraða.
    Það var mikil framför í löggjafarstarfinu þegar hæstv. þáv. forseti Sþ. beitti sér fyrir þeim breytingum á þingsköpum að það væri ákveðinn frestur sem yrði að taka tillit til þegar frumvörp yrðu lögð fram ef þau ættu að ná afgreiðslu. Það er litið á þann frest með þeim hætti m.a. núna að mál eru lögð inn nokkuð ótt og títt síðustu sólarhringana og þá er gert ráð fyrir því, miðað við fyrri starfsáætlun þingsins sem var lögð fram í haust, að þessi mál geti haft 3--4 vikur til meðferðar hér í þinginu.
    Það er einnig til fyrirmyndar í þingstörfum og ég hygg að það hafi ekki áður gerst og það er að þakka núv. hæstv. forseta Sþ. að það sé þó lögð fram í upphafi þings starfsáætlun fyrir allt þingið þar sem m.a. er nefndur hugsanlegur lokadagur, en ég minnist þess frá undanförnum árum að það hefur aftur og aftur verið með þeim hætti að það hefur ekki verið hægt að fá hugsanlegan lokadag nefndan fyrir þingið af stjórnarliði fyrr en komið var alveg fram undir lokin. Hér hef ég nefnt tvo þætti í þingstarfinu sem eru til bóta og eiga að geta hjálpað okkur við að leysa þær flækjur sem upp koma. Ég hefði haldið að það væri einlægast og viturra manna háttur í þeirri stöðu sem nú er komin upp og í framhaldi af þeim umræðum sem fram hafa farið að forseti hv. deildar, eins og hann er reyndar vís til að gera, setjist niður ásamt forustumönnum þingflokkanna í deildinni og menn reyni að raða verkunum niður. Ég held að það sé einfalt mál og í rauninni hefði engin ræðuhöld þurft til þess. Ég hygg að það sé hægt að gagnrýna hæstv. núv. forseta Ed. fyrir ýmislegt, en örugglega ekki fyrir það að hann hafi gengið fram gagnvart stjórnarandstöðunni í óbilgirni eða frekju eða yfirgangi. Ég hygg að margir menn ættu fremur skilið að fá þær einkunnir frá stjórnarandstöðunni en hæstv. núv. forseti Ed.