Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér eru viðhafðir sömu ósiðirnir ár eftir ár að vori og fyrir jól. Þeim er ævinlega mótmælt en breytast lítið og það versta er að menn venjast þeim. Menn venjast þeim og láta þá yfir sig ganga þrátt fyrir mótmæli og reyna að læra að lifa undir því álagi sem þessir ósiðir bjóða. Þó verður að segja að verklagið hefur breyst til batnaðar að nokkru leyti. Þetta er í áttina. Það hefur t.d. orðið breyting á þingsköpum meðan ég hef setið á þingi. Einnig höfum við nú fengið starfsáætlun eins og hæstv. menntmrh. gat um. Og þó að það sé ekki hægt að standa við hana að öllu leyti er hún þó skref í rétta átt til að hemja vinnubrögðin í einhvern ákveðinn farveg.
    Þetta slæma verklag er óþarft og það má breyta því. Á síðasta þingi voru fengnir sérfræðingar frá Noregi til að gera áætlun um breytta starfshætti og starfstilhögun þingsins. Þeir unnu skýrslu. Henni hefur ekki verið dreift meðal þingmanna. Henni þarf að dreifa og hana þarf að ræða því að af henni má margt læra. Þó að við tökum ekki upp allar tillögur sem þar eru gerðar né heldur allar í einu af þeim sem við viljum taka upp eru þær margar góðar og sumar hafa reyndar þegar verið teknar upp eins og t.d. það að hafa ritara í nefndum og svo að hafa dagskrá sem reynt er að standa við fyrir hvern þingfund. Það er allt til bóta.
    Meginefnið finnst mér vera nú að þessi vinnubrögð eru vanvirða við málin sem fjallað er um og dengt er hér inn í mikilli skæðadrífu á örfáum dögum vegna tímafrests sem settur er. Það er líka vanvirða við þingmenn og það fólk sem við erum fulltrúar fyrir að við skulum standa svona að því að vinna að þessum málum. Okkur gefst naumast tækifæri til að lesa þau áður en þau eru tekin á dagskrá. Ég verð að játa að ég hlustaði á þessar umræður um þingsköp með öðru eyranu meðan ég reyndi að lesa frv. til l. um Félagsmálaskóla alþýðu sem ég held að sé hið ágætasta mál og er hér á dagskrá því ég vildi gjarnan leggja orð í belg um það. Það er náttúrlega engin hemja að neyðast til að vinna á þennan hátt. Eftir því sem málunum fjölgar og líður á tímann er meira að gera í nefndunum þannig að það saxast á þann tíma sólarhringsins sem maður hefur til umráða til að kynna sér málin.
    Þessi stjórn er ekki barnanna best að því leyti að dengja inn málum rétt fyrir þinglok, en hún á sér þó þær málsbætur að hún tók við af skyndingi í haust og með litlum fyrirvara.
    Ég undirstrika að það er alls ekki við hæstv. forseta að sakast í þessum efnum. Þar er við alla stjórn þingsins að sakast, ríkisstjórn og reyndar formenn þingflokka að hafa ekki komið sér saman um það fyrr að setjast niður og ræða forgangsröð mála. Og auðvitað á stjórnin að hafa frumkvæði að því ef hún ætlar að fá sín mál í gegn að reyna að ná þeim fram í sátt og samlyndi og friði við þá sem vinna í þessu húsi. Jafnvel þó að þessi stjórn hefði ekki nauman meiri hluta á hún og þá eiga stjórnir að sýna samstarfsfólki sínu þá virðingu, þá lágmarkskurteisi að

kynna fyrir þeim þau verkefni sem eru á dagskrá og ætlað er að fjalla um. Það getur verið að fólk sættist á að mörg þessara mála þurfi og verði að fara í gegn. En þrátt fyrir það verðum við að kynna okkur þau til þess að við getum rætt um þau af einhverju viti. Þess vegna hljótum við að kalla til fundar og ákveða forgangsröð mála og það verklag sem við viljum hafa til þingloka.