Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. sagði um umferðarlagafrv. sem hér hafa verið til umræðu þá er það nú svo að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hefur verið aðaltalsmaður Sjálfstfl. í þeim efnum, flutt þau mál hér í deildinni og starfað mjög mikið og vel að þeim málum. Ég vissi ekki að hv. þm. Halldór Blöndal væri orðinn talsmaður og áhugamaður um þessi umferðarmál, en fagna því ef svo er, bendi honum hins vegar á í fullri vinsemd að ýmis atriði í frumvarpi mínu og frumvarpi hv. þm. Salome Þorkelsdóttur eru mjög svipuð efnislega. Þetta frv. var bæði einfalt og tiltölulega auðvelt að móta afstöðu til þess og kynna sér það, ef menn vildu.
    Ég ætla, herra forseti, að leiða hjá mér þau köpuryrði sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur látið hér falla í minn garð. Það er hans mál. Ég vildi hins vegar segja það varðandi þau orð sem hann lét falla um þá starfsáætlun sem lögð var fram hér í upphafi þings, að það er auðvitað rétt að hún hefur ekki haldið í öllum greinum. Það skal ég fyrstur manna viðurkenna. Hún er hins vegar mikilvægt skref í þá átt að skipuleggja störf þingsins og ég hygg að á þessum vetri höfum við öðlast mikla og dýrmæta reynslu varðandi það. Og eins og hæstv. menntmrh. sagði hér áðan er það vissulega nýlunda að það skuli vera nefndur þinglausnadagur yfir höfuð, því að yfirleitt hefur þurft að toga það með töngum út úr hverri þeirri ríkisstjórn sem setið hefur, og undanskil ég enga ríkisstjórn, þann tíma sem ég hef setið hér á hinu háa Alþingi. Nú liggur þó fyrir ákveðin dagsetning. Það er ekkert víst að hún haldi, eins og ég sagði hér áðan, en ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt skref í störfum þingsins að fá slíka starfsáætlun.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði varðandi þau ummæli mín um frv. til laga um Háskóla Íslands. Hann dró það mjög í efa að það hafi verið rétt. Ég fullyrti nú raunar ekki að það mál hefði verið samþykkt. Ég sagði að mig minnti það. En ég man það hins vegar mætavel þegar verið var að ræða þetta mál við okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar nokkrum dögum áður en þingi átti að ljúka. En það má vel vera, hv. þm. Halldór Blöndal, að niðurstaðan hafi orðið sú í þessu tilviki að málið var ekki lagt fram. Það má vel vera. Ég skal fallast á það. En það breytir ekki hinu að dæmin eru um það að mál hafi komið allt of seint fram hjá ýmsum ríkisstjórnum, og þar eru mér minnisstæðir ýmsir hv. ráðherrar Sjálfstfl., hafi komið fram örfáum dögum fyrir þinglausnir. Það er mjög einfalt að láta rannsaka það mál hér á skrifstofu þingsins. Það er verið að því. Ég minnist nú mála eins og um Siglingamálastofnun og sitthvað fleira sem ég hygg að hafi verið mjög seint á ferð, en ég ætla ekkert að fara út í karp um þetta. Dæmin eru mýmörg. Þetta háskólafrumvarp var mér ofarlega í huga vegna þess að um það var haldinn sérstakur fundur hér í myndaherberginu tveimur eða þremur dögum áður en þinginu lauk. En vel má vera að ráðherra hafi gert sér ljóst að þarna var til of mikils ætlast gagnvart þingmönnum öllum og málinu ekki

verið þröngvað fram. En það átti sannarlega að gera það. Minnið er nú kannski brigðult á svona hluti sem gerast í þessum lotum undir þinglokin, en ég hygg að fleiri hv. þm. muni það með mér að þetta frv. var hér á ferðinni.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessa umræðu frekar og vona að senn getum við tekið til við hin eiginlegu þingstörf hér í dag.