Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekki nýtt þegar líða tekur að þinglokum að slíkar umræður eins og hér hafa orðið eigi sér stað. Þetta gerist svona a.m.k. þrisvar á ári og ekki nema eðlilegt eins og vinnubrögðum er yfirleitt háttað hér á hv. Alþingi. Ég er ekkert hissa á því þó stjórnarandstæðingar hefji slíkar umræður, stjórnarliðar ættu að gera það líka, því að auðvitað er þetta okkar mál allra hvernig þinghaldinu er stjórnað og hvernig það fer fram.
    Núna frá því um helgi munu hafa verið lögð fram a.m.k. um 30 stjfrv. ( Menntmrh.: 27.) Eða 27. Það er ekki langt frá því, enda er ég nálægt sannleikanum yfirleitt. 27 stjórnarfrumvörp. Ég segi ekki að þau eigi öll að afgreiða, ég veit það ekki enn. 27 stjórnarfrumvörp á tveimur til þremur dögum. Er það boðlegt þingmönnum almennt í þingræðisríki að ætlast til þess, hvar sem menn eru í flokki, að menn samþykki slík vinnubrögð? Nú er ég ekki að gera athugasemdir við efnisatriði slíkra frumvarpa, bara vinnubrögðin. Ég tel sjálfur að slíkt sé ekki boðlegt. Og ég tel líka að við hinir óbreyttu þingmenn eigum fullan rétt á því að fá afgreiðslu þeirra mála sem við leggjum höfuðáherslu á. Ég viðurkenni það ekki að það sé bara ríkisstjórn, hver sem hún er hverju sinni, sem eigi bara að fá afgreidd sín mál, þó að þau geti að vissu leyti verið mikilsverð og markverð. Það eru mál sem óbreyttir þingmenn hafa flutt sem eiga fullan rétt á því að fá afgreiðslu áður en þingi lýkur. Ég vil a.m.k. í því tilfelli nefna það þingmál sem var lagt fram í gær á svipuðum tíma og stjfrv. hafa verið lögð fram núna undanfarna daga, sem er varðandi breytingu á lögum um almannatryggingar. Það er slíkt nauðsynjamál að mínu viti --- ekki hvað síst siðferðislega --- að nái fram að ganga, að þeir einstaklingar, sem orðið hafa fyrir mistökum í læknismeðferð af höndum lækna eða starfsfólks á sjúkrastofnunum, fái greiddar bætur eins og slysatryggingar gera ráð fyrir í hverju tilfelli. Það væri fyrsta skrefið að því að menn viðurkenndu í þessu þjóðfélagi að þetta fólk eigi rétt líka eins og aðrir.
    Auðvitað mætti nefna miklu fleiri mál. Ég tek mjög undir það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér áðan. Þingmenn eru ekki neinar tuskubrúður. ( Gripið fram í: Síst af öllu hann.) En málið er auðvitað það að menn tala misjafnt eftir því hvar þeir eru settir hverju sinni. Það er allt of mikið um það að stjórnmálamenn í tilteknum stjórnmálaflokkum láti leiða sig um of inn á brautir hlekkjanna í kerfi flokka. Menn eiga auðvitað að hafa sjálfstæðar skoðanir og þingið á auðvitað að ráða ferðinni, en ekki flokkarnir, hverjir sem þeir eru í hverju tilviki í hverri ríkisstjórn. Það er lífsnauðsyn að við afléttum því oki ríkisstjórna hverju sinni, að það séu einvörðungu þeirra skoðanir sem ná fram að ganga. Það gengur ekki í þingræðisríki. Það er ekki lýðræði. Með þeim hætti er lýðræðið fótum troðið á löggjafarsamkomunni.
    Hv. þm. Halldór Blöndal vék líka að kjarasamningum við BSRB. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum þar um en ég hlýt eigi að síður að

fordæma þær ögranir hæstv. fjmrh. sem hafa komið fram gagnvart almennu launafólki innan Alþýðusambands Íslands og vinnuveitendum sem hafa staðið og standa enn í ströngu gagnvart sínum atvinnurekstri. Það er ekki skynsamlegt af einum eða neinum sem telur sig til mannaforráða fallinn að láta slíkar ögranir í ljós gagnvart almenningi sem á við erfiðleika að etja. Slíkt er óskynsamlegt í alla staði. Slíkt á ekki að gerast og er engum til góðs, flestum til ills. Meira skal ég ekki um þetta segja en þetta taldi ég rétt að kæmi fram af því að ég tel mig einn af þeim sem eiga a.m.k. að reyna að verja hagsmuni hins almenna launafólks innan Alþýðusambandsins og líka atvinnureksturinn sem þjóðin byggir öll á.
    Þetta vildi ég sagt hafa. Auðvitað væri mikið fleira um þetta að segja. En ég ítreka að það nær ekki nokkurri átt að hæstv. ríkisstjórn ætlist til þess að við hinir óbreyttu þingmenn verðum eins og tuskubrúður til þess að rétta upp hendur við frumvörpum ríkisstjórnarinnar án þess að taka tillit til annarra frumvarpa sem óbreyttir þingmenn hafa flutt og eru ekki minna virði fyrir almenning í landinu heldur en stjórnarfrumvörpin eru þó ég sé á engan hátt að gagnrýna þau.