Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er orðið fyllilega tímabært að skýrari og ákveðnari skil séu gerð milli verkefnis ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Ánægjulegt er að nú skuli þessi mál vera komin svo langt að samstaða virðist vera um hvernig þeim skuli fyrir komið. Svo virðist sem í stórum dráttum séu bæði fulltrúar sveitarfélaganna og ríkisvaldsins ánægðir með niðurstöðuna. Með þessu frv. er skrefið tekið til fulls og verkefnaflutningur er ekki eingöngu frá ríki til sveitarfélaga, eins og í frv. því sem lagt var fyrir þingið í fyrra, heldur einnig frá sveitarfélögum til ríkisins. Þetta tel ég til mikilla bóta. En þrátt fyrir þá áherslu sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt á það hve gott og hagstætt þetta muni vera fyrir litlu sveitarfélögin hef ég af því vissar áhyggjur að sú muni ekki verða raunin. Ég óttast að litlu sveitarfélögin muni jafnvel eiga í enn meiri erfiðleikum eftir þessar breytingar en áður og sjálfstæði þeirra skert. Þó vona ég að sú spá mín rætist ekki.
    Vissulega eru margir þættir frv. sem orka tvímælis, en það er þó fyrst og fremst tvennt sem erfitt er að sætta sig við í því. Er þar annars vegar um að ræða fyrirætlanir um að breyta rekstri tónlistarskóla frá því sem nú er. Óttast margir að með breyttu fyrirkomulagi muni tónlistarskólarnir margir hverjir eiga erfitt uppdráttar. Það skref sem hér er verið að taka er því að vissu leyti skref í öfuga átt. Hinu atriðinu sem ég tel vera mikla afturför hefur hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir gert grein fyrir hér fyrr í umræðunni eins og hún reyndar gerði um tónlistarskólana líka. Ég geri athugasemdir við að nú sé gert ráð fyrir að veikja faglega umsjón stjórnvalda með dagvistarheimilum. Þetta tel ég stórt skref aftur á bak og skil raunar ekki hvað er á ferðinni, sérstaklega með tilliti til þess að hér var í fyrra lögð fram þáltill. um forskólastigið og skipulag þess af einum af þm. Alþb., hv. 2. þm. Austurl. Ég hefði talið eðlilegt að ákvæði frv., eins og það var lagt fyrir upphaflega, hefði verið látið standa óbreytt.
    Þrátt fyrir þessa annmarka sem ég vona svo sannarlega að verði sniðnir af hið fyrsta hef ég ákveðið að styðja þetta frv. og segi því já.