Félagsmálaskóli alþýðu
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Hér er á ferðinni mál sem skiptir mjög miklu máli fyrir íslenska alþýðu, málefni sem lýtur að fullorðinsfræðslu, að aukinni menntun, að því að reisn hins almenna verkamanns og verkakonu í þjóðfélaginu geti verið með meira móti en unnt hefur verið til þessa.
    Skólahald, sem hér er um rætt, er tíðkað víða í Skandinavíu. Þar hafa menn haft frumkvæði að því að koma á slíkri fullorðinsfræðslu, skynjað þörfina á því að hafa menntað verkafólk, fólk sem er vitandi um rétt sinn og skyldur, fólk sem hefur hlotið fræðslu um það hvernig skuli að málum standa varðandi kjarasamninga og mótun þjóðfélagsins, og ég er sannfærður um það að verði frv. að lögum eigum við eftir að sjá sterkari verkalýðshreyfingu, ábyrgari verkalýðshreyfingu og traustari samskipti milli ríkis og verkalýðshreyfingar og jafnvel vinnuveitenda en fyrr.
    Með samþykkt frv. erum við að halda á fund nútímans í samskiptum við verkalýðshreyfinguna og ég vænti þess að hv. þingdeildarmenn verði sammála um að flýta frv. sem unnt er.
    Ég ætla ekki að segja fleira að þessu sinni þannig að fleiri komist að og læt því máli mínu lokið.