Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að tefja það að þingmál komist til nefnda, en ég kemst ekki hjá því að gera hérna ákveðnar athugasemdir í upphafi þessa fundar sem hefst á nokkuð óvenjulegum tíma.
    Sl. mánudag rann út frestur til að skila inn þingmálum sem menn gerðu svo sannarlega svikalaust og síðan þá og fyrr hefur beinlínis skæðadrífa þingmála verið stanslaus inn á borð þingmanna svo að ekki hefst undan að kynna sér efni þeirra og ríkisstjórnin hefur svo sannarlega ekki látið sinn hlut eftir liggja, en eins og kunnugt er hafa frumvörp ríkisstjórnarinnar ákveðinn forgang í þinghaldinu sem erfitt er að hnekkja.
    Um 65 ný þingmál voru skráð á mánudaginn var og samkvæmt upplýsingum skjalavarða munu hafa borist ekki færri en 30 ný stjórnarfrumvörp síðustu daga. Óafgreidd stjórnarfrumvörp eru nú 71 talsins og sex þingsályktunartillögur frá ríkisstjórninni eru óafgreiddar.
    Í upphafi þingsins lagði stjórn þingsins þær línur að þinghaldi skyldi ljúka 6. maí. Þrátt fyrir þetta hafa ráðherrar og formenn annasamra þingnefnda gefið sér tóm til utanlandsferða eins og tíminn og annirnar væri þeim ekkert áhyggjuefni. Mitt í þessu öllu fer stjórn þingsins fram í tilkynningaformi en samráð er nákvæmlega ekkert, a.m.k. ekki við þingflokk Kvennalistans. Forseti deildarinnar, Kjartan Jóhannsson, lýsti fyrir um að bil mánuði ákveðnum verklagsreglum sem hann vildi gjarnan viðhafa og lýsti áhuga sínum á því að hafa gott samstarf við þingmenn svo allt mætti verða með sem ágætustum hætti. Þetta verklag virðist nú þegar tekið að rykfalla. Ekkert samráð hefur verið um tilhögun þinghalds undanfarna daga. Í gær hófst þingfundur hér skömmu fyrir kl. 2 að loknum stuttum fundi í Sþ., en sá fundur var á þeim óvenjulega tíma vegna þess að daginn áður voru ekki nægilega margir þingmenn til þess að greiða atkvæði og koma vegáætlun til nefndar. Dagskrá fundarins í gær var mjög löng, en henni varð þó að mestu lokið á þessum fundi sem stóð til kl. að ganga átta í gærkvöldi, en þá voru að vísu aðeins örfáar hræður eftir í þinghúsinu. Ekkert samráð var haft um tilhögun þess fundar fremur en annarra, enda þótt í þeim verklagsreglum sem ég fyrr nefndi og voru kynntar hér fyrir um það bil mánuði sé talað um að fundi skuli ljúka að jafnaði um kl. 17 á þriðjudögum, en sé ætlunin að hafa það öðruvísi sé það tilkynnt í upphafi fundar og, eins og ég sagði áðan, áhersla lögð á samráð við þingmenn.
    Í morgun er okkur svo tilkynnt að fundur hefjist í dag á óvenjulegum tíma kl. 1.30 og jafnframt að ætlunin sé að hefja fund á föstudaginn kl. 1, sem sagt tilkynningar á tilkynningar ofan en ekkert samráð. Þetta er að mínum dómi ekki aðeins ókurteisi og tillitsleysi og óvirðing gagnvart tíma þingmanna, sem af veikum mætti eru að reyna að skipuleggja tíma sinn þannig að hann nýtist nú sem best, heldur er þetta algert brot á reglum sem forseti kynnti fyrir mánuði og þetta er brot á verklagshefðum og

samskiptavenjum hér í þinginu. Ég hlýt því að mótmæla harðlega þessari framkomu og óska eftir því við forseta þingsins að sem fyrst verði boðað til samráðsfundar með fulltrúum þingflokka um þinghaldið á næstu vikum.
    Það er borin von að þingið afgreiði allt sem óafgreitt er og við verðum ekki síðar en nú að reyna að ná samkomulagi um tímasetningar og afgreiðslu mála. Það eitt er víst að þinghaldið gengur ekki með þessu lagi. Stjórn þingsins getur ekki leyft sér slíka framkomu og yfirgang gagnvart þingmönnum.