Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir þau aðfinnsluorð sem hér hafa verið töluð og verð að segja það eins og það er að ég vissi ekki um að þessi fundur væri á óvenjulegum tíma heldur sjálf. Ég heyrði það eins og ýmsir hv. þm. hér á göngum.
    Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Hingað til höfum við svo sannarlega reynt að haga þinghaldi þannig að fundir væru á reglulegum tíma og síðast þegar formenn þingflokka hittust og ræddu þinghaldið með hæstv. forsrh. voru engar horfur á öðru en þinghald gæti farið fram með venjulegum hætti og starfsáætlun þingsins héldist.
    Í þessari viku hefur ekki verið haldinn slíkur fundur einfaldlega vegna þess að einn hæstv. forseta, forseti Nd., hefur verið fjarverandi vegna veikinda og var beðið eftir honum, en það hefur aðeins dregist þannig að það verður að kalla saman fund þótt hann sé ekki viðstaddur og hefði verið gert ef við hefðum ekki átt von á honum dag hvern.
    En síðan verð ég að segja það alveg hreinskilnislega að það kom mér mjög á óvart að sjá þá skæðadrífu sem féll hér inn af stjórnarfrumvörpum á síðasta degi, þ.e. 10. apríl, og það verður að funda um það til hvers er ætlast af þinginu í þeim efnum. Ég lít svo á að flest þeirra hljóti að vera eingöngu til þess að sýna. Það er varla hægt að ætlast til þess að þingið afgreiði öll þessi mál á þessu þingi. Það held ég að sé alveg af og frá. Og hér held ég að hafi verið mjög óvenjulega mikið magn af þingmálum á einum degi.
    Ég skal svo sannarlega boða til fundar með þingflokksformönnum og hæstv. forsrh. um hvernig þinghaldi skuli hagað á næstu vikum og til hvers sé ætlast af þinginu, hvaða mál skuli hafa forgang og hver megi bíða.
    Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á að þessi gangur mála hæfir að sjálfsögðu ekki og mun verða reynt að bæta úr því sem verða má.