Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að óska eftir því að við fengjum lista yfir þau frumvörp sem ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á að koma fram og flokkað í þrennt þannig að það verði líka listi yfir það sem verði reynt að koma fram ef það sé hægt og það sé ekki ætlast til að við fjöllum mikið um hér annað en koma því til nefndar.
    Ástæðan fyrir því er sú að eftir því magni sem er búið að leggja fram og öll þau mál sem eru óafgreidd treysti ég mér fyrir mitt leyti ekki til að kynna mér þessi skjöl og þess vegna vil ég vita hvað á að sitja fyrir eða verður að sitja fyrir og ég óska eftir því að það verði gert sem fyrst að flokka þetta í þrjá flokka.