Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Það er ágætt að menn ræði um skipulag þingstarfa á þessum tíma rétt eftir lokadag í sambandi við þingmálin sem skilað er hér inn. Það sýnir að það er full þörf á því að hafa reiður á störfum þingsins næstu vikurnar eða þangað til þingi lýkur og má mikið vera ef það tekst að halda þá áætlun sem forseti Sþ. hefur kynnt mönnum og kynnti þegar í haust á þeirri stundaskrá sem við fengum þá. Ég vil taka það fram sem annar varaforseta í deildinni að það er sjálfsagt að hafa sem best samráð við stjórnarandstöðu um þinghaldið og fundi í deildinni. Ég hygg að það sé einfaldlega yfirsjón hjá okkur sem höfum verið að hlaupa í skarðið fyrir aðalforseta deildarinnar sem hefur boðað veikindaforföll, er veikur nú undanfarna daga, að rækja ekki þetta samráð við stjórnarandstöðuna vegna breytts fundartíma sem skyldi. Það er áreiðanlega enginn ásetningur að breyta frá því sem forseti deildarinnar hafði boðað í sinni tilkynningu, þær verklagsreglur sem hann þá kynnti.
    Ég tel hins vegar ekki ástæðu fyrir þingmenn að hafa uppi stór orð um það þó að hér snjói inn þingmálum. Það er einfaldlega afleiðing af því að við höfum sett okkur eindaga í þeim efnum sem meginreglu og menn eru að reyna að uppfylla hana. Mér sýnist bæði stjórn og stjórnarandstaða keppast þar við og eiga sinn góða hlut í þeim þingmálum sem þar koma fram og liggja fyrir. Síðan mun það að sjálfsögðu ráðast og verða samningsatriði m.a. hvaða mál það eru sem ná afgreiðslu í þinginu.
    Ég vil nefna það hér vegna þess að það er eitt af því sem snýr að verklagi hér í deildinni að í gær á hinum fasta fundartíma samkvæmt þeim reglum sem boðaðar höfðu verið var ég í forsetastóli upp úr kl. 4 og hugðist koma málum sem þá voru útrædd til nefnda, en þá reyndist ekki vera nægur fjöldi þingmanna í þingsal til að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Það vantaði á að atkvæðagreiðsla gæti farið fram, voru ekki nógu margir þingmenn mættir og í þeim hópi þingmenn sem ekki höfðu tilkynnt fjarvistarleyfi. Ég hygg að í þinghúsi hafi að vísu verið 22 þingmenn samkvæmt þeirri töflu sem er í borði forseta, en það var ekki nægur fjöldi í þingsal og fjarverandi voru bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar í þingdeildinni. Ég hef ekki tölur um það út af fyrir sig, en það skorti sem sagt á það að menn ræktu sínar þingskyldur að þessu leyti og voru býsna margir fjarverandi. Þetta tefur þingstörfin og þarf að gæta þess að svo verði ekki ef við ætlum að ná landi með okkar störf innan þess tíma sem menn hafa sett sér.