Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Forseti (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Áður en forseti slítur umræðunni vildi hann aðeins geta þess að ástæður fyrir því að lagt var til að boða til þessa fundar hálftíma fyrr en venja er voru tvær. Sú fyrri óvenjulegur fjöldi mála, þ.e. níu, sem kæmu til atkvæða í upphafi fundar. Það var að vísu ekki ljóst fyrr en undir kl. 19 í gærkvöld. Seinni ástæðan var sú að forseta gekk það til, eins og raunar hefur komið fram í umræðunum, að ná á dagskrá einum sex þmfrv. eins og heitið hafði verið fyrir fram. Í umræðunum hefur komið greinilega fram, og auðvitað er það svo að forseti getur undir það tekið að flest af því sem hér hefur fram komið voru orð í tíma töluð, að væntanlega verður samráðsfundur til að bæta þar úr um það sem okkur hefur því miður orðið á í skorti á samráði, þeim sem hafa hlaupið hér í skarð fyrir þá sem meginábyrgð bera í þessum efnum.