Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Ég fagna því að hér hefur verið lagt fram frv. til laga um hagstofnun landbúnaðarins og þakka hæstv. landbrh. fyrir að hafa fylgt því svo hlýlega úr hlaði. Á undanförnum árum hafa bæði búnaðarþing og aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkt ályktanir um nauðsyn þess að koma á fót hagstofnun landbúnaðarins þar sem á einni hendi væru hagtölur landbúnaðarins og þar sem hagfræðilegar áætlanir fyrir landbúnaðinn yrðu unnar. Ég hygg að nú um stundir séu það sérstaklega þessi hin hagrænu sjónarmið sem þurfi að leggja áherslu á að skoða í landbúnaði. Að sjálfsögðu þarf að fjalla nánar um einstaka þætti frv. og greinar og e.t.v. laga til einhver ákvæði þess. En í heild ber að fagna því að það er komið hér á borð þingmanna. Og alveg sérstaklega vil ég fagna því ákvæði í 1. gr. frv. þar sem segir: ,,Hagstofnun landbúnaðarins skal hafa aðsetur á Hvanneyri í Andakílshreppi og skal rekstur hennar vera í nánum tengslum við búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.``