Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég efast ekki um að það mál sem hér er til umræðu sé hið merkilegasta og að hlutverk þeirrar stofnunar sem kölluð er hér Hagstofnun landbúnaðarins sé mjög mikilvægt eins og kemur fram í greinargerð og reyndar í 2. gr. þessa frv. En frv. hlýtur þó að vekja ýmsar spurningar sem ástæða er til að fjalla örlítið um við 1. umr. þótt ég viðurkenni að ég hafi ekki haft tíma eða tækifæri til að fara ítarlega yfir þetta fyrirliggjandi frv. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að skoða málið og ræða það efnislega í nefndum og fjalla um það með þeim hætti sem eðlilegt er þegar stjfrv. ganga til nefnda.
    Það vekur hins vegar athygli og verður að segjast eins og er að þetta stjfrv. skuli vera lagt fram af ríkisstjórn sem Alþfl. á aðild að. Það vekur athygli einkum og sér í lagi vegna þess að Alþfl. hefur hvað harðast barist fyrir því að einfalda kerfið og draga úr yfirbyggingu og ríkisafskiptum, ekki síst í landbúnaði, og sú var tíðin, a.m.k. er það mín reynsla, að þegar við áttum sæti í ríkisstjórn ásamt Alþfl. hefði frv. á borð við þetta ekki fundið náð fyrir þeirra augum. Nú virðast vera breyttir tímar. Alþfl. virðist bera ábyrgð á þessu frv., en þó ber að geta þess að ég hef haft samband við tvo ráðherra flokksins og beðið þá um að vera viðstadda þessa umræðu til að fá að tala við þá og spyrja þá um þetta, en hvorugur þeirra hefur fengist til þess að vera í þingsalnum og eru þeir þó báðir í þinghúsinu. Þeir bentu hins vegar á þriðja ráðherrann sem finnst ekki. Ég skil það mjög vel því að það frv. sem hér er á ferðinni er frv. sem stangast á við þær hugmyndir sem þeir hafa a.m.k. haldið hvað harðast á loft. ( Landbrh.: Það vill svo til að landbrh. flytur málið.) Það vill svo til að landbrh. flytur málið og það vill einnig svo til að landbrh. er í Alþb. en ekki Alþfl. og vona ég að hæstv. landbrh. sé sammála mér um það og um það snýst málið --- nema það sé búið að sameina þessa tvo flokka. Það stóð til að gera það eftir áramótin að búa til einn stóran rauðan flokk úr þessum tveimur litlu dvergum. Það hefur tekist þannig að fylgið hrynur af þeim í skoðanakönnunum. ( Gripið fram í: Er klofningur í Sjálfstfl. í málinu?) ( ÓÞÞ: Talar hv. ræðumaður fyrir Alþfl.?) Hv. ræðumann, svo að ég taki upp frammíköll, langaði til þess að tala við forustumann Alþfl. um þetta mál. ( ÓÞÞ: Það er mjög erfitt að þeim fjarverandi.) Það er einmitt þess vegna sem ég hef þurft að vekja athygli á því og þakka ég þetta frammíkall sem mun þá geymast og varðveitast til þess að vera minnisvarði um þátttöku Alþfl. við 1. umr.
    Nú vil ég að hv. alþm. misskilji mig ekki á þann veg að ég sé á móti þeim efnisatriðum sem hér er fjallað um. Það er hins vegar spurning að hve miklu leyti ríkisvaldið sem slíkt á að þjóna einni atvinnugrein í landinu umfram aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna á ríkisvaldið frekar að setja upp hagstofnun fyrir landbúnaðinn en sjávarútveginn? Er það vegna þess að landbúnaðurinn er mikilvægari fyrir þjóðina en sjávarútvegurinn? Hvers vegna á frekar að vera ríkisstofnun sem sér um hagskýrslur fyrir

landbúnaðinn en verslunina, iðnaðinn í landinu, ferðamálin? Þetta er grundvallarspurningin. Ætlar ríkisstjórnin að halda þessu starfi áfram? Ætlar samgrh. að setja upp fleiri hagstofnanir fyrir fleiri atvinnugreinar? Það er meginspurningin. Er farið með ríkisvaldið alveg eins og mönnum sýnist? Á stundum að gera þetta með þessum hætti og stundum með öðrum? Og nú skulum við aðeins kanna málið. Það kemur nefnilega fram í greinargerð með frv. að sú starfsemi sem þarna á að fara fram hefur farið fram. Hún hefur m.a. farið fram á vegum Búnaðarfélags Íslands. Það kemur alveg glöggt fram í þessu ágætlega unna frv., ég tek alveg undir það, á bls. 5. Búreikningastofa landbúnaðarins er undir stjórn Búnaðarfélags Íslands. Það eru til lög um þá stofnun, en hún er ekki ríkisstofnun. Ef þarna er um fjárhagsmál að ræða vil ég benda á að sú stofnun hefur fengið fjármagn frá ríkinu. Það hefur ekki verið vandamálið. Nei. Svarið er þetta, það kemur fram síðar: Það á að gera þessa stofnun að ríkisstofnun til þess að hún verði trúverðug. Það stendur hérna: ,,Í fjórða lagi en ekki síst er þátttaka ríkisvaldsins nauðsynlegur þáttur til að gefa niðurstöðum slíkrar stofnunar hlutleysi gagnvart öllum aðilum.``
    Við skulum aðeins hugsa um það sem hér er sagt. Meiri hluti stjórnar verður áfram fulltrúar frá samtökum bænda og búvísindadeildarinnar á Hvanneyri. Það er fulltrúi Búnaðarfélagsins, fulltrúi Stéttarsambands bænda og fulltrúi búvísindadeildarinnar á Hvanneyri. Minni hlutinn kemur annars vegar frá Þjóðhagsstofnun og hins vegar frá Hagstofunni. Um leið og þetta gerist af því að þetta er ríkisstofnun eiga allir að segja: Þetta er ríkisstofnun og við eigum að trúa ríkinu. Stóri bróðir er núna kominn í málið og auðvitað mótmælir enginn því sem þaðan kemur.
    Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er engin önnur stofnun í landinu sem gæti tekið að sér að safna saman skýrslum? Sú var tíðin og þess vegna hefði ég viljað tala við Alþfl. að a.m.k. þaðan og úr ýmsum öðrum hornum komu þau sjónarmið að það ætti að sameina þessa hagsýslugerð og frekar ætti að vinna að sameiningu stofnana eins og Hagstofunnar, Þjóðhagsstofnunar og jafnvel taka úr Seðlabankanum það sem þar fer fram af þeirri starfsemi fremur en sundra. En
hvað gerir þessi ríkisstjórn? Hún ætlar í fyrsta lagi að koma á laggirnar opinberri stofnun, hagstofnun fyrir landbúnaðinn, og ég trúi ekki öðru en næsta skrefið verði þá hagstofnun ríkisins fyrir verslunina, iðnaðinn og sjávarútveginn því það eru allt mikilvægar greinar sem auðvitað þurfa að njóta þess að fólk hafi trú á niðurstöðum þeirra ef það eru einhver rök.
    Ég segi: Það er áreiðanlega allt skynsamlegt sem þessi stofnun þarf að gera og það er áreiðanlega allt rétt, sem hér hefur komið fram í umræðunum, um að þessar upplýsingar þurfi að vera til og það getur verið mjög ákjósanlegt að færa þessa starfsemi úr Hótel Sögu frá Búnaðarfélaginu og á Hvanneyri og setja þessa stofnun í tengsl við búvísindadeildina þar, flytja

hagfræðing, eitt stykki eða tvö, sem eru starfandi vestur á Melum, upp í Borgarfjörð. Ég get verið sammála því og er alveg viss um að þetta er hið mesta nauðsynjamál. Það er hins vegar spurning: Réttlætir það að hagstofnunin verði ríkisstofnun? Og ef það er einhver réttlæting fyrir því, ætlar þá hæstv. ráðherra að taka margt fleira sem Búnaðarfélagið og Stéttarsamband bænda gerir í dag og færa það til ríkisins? Margt af því er borgað af ríkinu. Hver er stefna ráðherrans? Það getur vel verið að það liggi á þessu máli einhver reiðinnar býsn. Þetta er allt starfsemi sem fer fram. En ég bið menn um að skoða það: Hvert getur framhaldið orðið? Er hugsanlegt að þessi stofnun sé rekin áfram á vegum landbúnaðarins sjálfs, jafnvel þó að ríkið styrki þá starfsemi? Mér finnst óhugnanlegt ef það á að taka þessa starfsemi út úr án þess að menn hafi gert sér grein fyrir því að það eru fleiri atvinnuvegir í landinu sem þurfa á þessu að halda.
    Viðbótin við núverandi starfsemi sem verið er að tala um er fyrst og fremst að samræma bókhald. Það kom fram hjá einum hv. þm. að bændur væru bókhaldsskyldir. Það eru allir sem stunda atvinnurekstur bókhaldsskyldir, allir einyrkjar í atvinnurekstri hvort sem þeir eru bændur eða ekki. Menn skulu ekki grípa til slíkra raka. Aðalatriði málsins er: Hvar á að koma þessari stofnun fyrir? Og ég verð að segja að ég skil vel, virðulegur forseti, fjarveru forustu Alþfl. og reyndar allra þingmanna hans í Nd. við þessar umræður.