Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur frammi til laga um hagstofu landbúnaðarins er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Í þessu frv. kemur fram stefnubreyting hjá ríkisstjórninni í þá veru að hagsmunasamtök geta átt von á því að ríkið yfirtaki þeirra starfsemi og bjóði þeim upp á þessa þjónustu. Það hefur verið rakið hér að kostnaðurinn er greiddur úr ríkissjóði. Við í þéttbýlinu þekkjum hundruð manna sem reka eigin fyrirtæki, iðnaðarmenn t.d. Og hvað gera þessir menn? Hafa þeir einhverja hagstofu þar sem ríkið reiknar út fyrir þá? Nei, þeir mynda sín eigin samtök. Og hafa þeir einhverja sérstaka ríkisstofnun sem færir bókhaldið fyrir þá? Nei, þeir leita til einkaaðila, löggiltra endurskoðenda. Og hlutverk hagstofu landbúnaðarins, segir hér, er að vinna upp heildarupplýsingar um aðbúnað landbúnaðarins í fyrsta lagi. Skyldi ekki Búnaðarfélag Íslands geta gert þetta og hefur gert og er það ekki miklu eðlilegra? (Gripið fram í.) Það gerir það áfram þá, en það ætti að leggja það niður sem ríkisstofnun og Stéttarsamband bænda ætti að vera rekið eins og önnur stéttarsamtök og ekki hafa neinn forgang.
    Í öðru lagi skal vinna að verðlagningu búvara. Skyldi ekki fólkið í þéttbýlinu hafa gaman af að heyra þetta, með hæsta verð á landbúnaðarvörum í heiminum? (Gripið fram í.) Um þetta þarf ekki að hafa neinar upplýsingar. Menn geta bara farið út í búð.
    Í þriðja lagi hafa umsjón með hagrannsóknum í landbúnaði. Í fjórða lagi hafa frumkvæði um áætlanagerð við búrekstur. Í fimmta lagi að stuðla að því að sem flestir bændur færi bókhald fyrir bú sín. Og skyldi maður nú staldra við þetta? Er það væntanlega svo að bændur eru skyldir samkvæmt skattalögum að færa bókhald og geta þá leitað til endurskoðanda ef með þarf. Er miklu nær að svo væri gert en setja á fót sérstaka stofnun fyrir þetta.
    Í sjötta lagi að hafa umsjón með gerð og þróun bókhaldsforrita. Við eigum nóg af fyrirtækjum í tölvuiðnaði sem geta gert þetta. Hér eru fyrirtæki sem hafa gert forrit fyrir verslun, bókhald fyrir hana, bókhald fyrir ýmiss konar rekstur og menn hafa keypt af þessum aðilum bókhaldsforrit. Það er ekkert meira að það verði gert með þeim hætti í þessari grein en öðrum.
    Þegar maður er búinn að fara yfir verkefnasviðið er þetta ekki meira starf en fyrir einn sæmilega röskan mann. Það er ekki meira verk þó að þeir hafi ætlað að það væri fyrir þrjá háskólamenntaða menn að leggja þetta fram. Það er verið að yfirfæra til ríkisins æ fleiri verkefni sem ættu að vera hjá frjálsum samtökum. Bændur væru betur komnir og hefðu betri kjör ef þeir hefðu sín frjálsu samtök og réðu sínum málum betur en með því að ríkið sé með puttana í þessari áætlanagerð, í bókhaldinu. Það er langbest að menn sjái um þetta sjálfir.
    En með þeirri stefnu sem nú er ríkjandi í landbúnaði er augljóst að þetta er að verða eins og ríkisrekið. Þetta frv. til l. er staðfesting á því að það

er verið að auka það skrifræði sem ríkir á Íslandi og væri betur að svo væri ekki. Þegar maður les yfir einstakar greinar frv. er þar allt sem maður gæti haldið að væri eðlilegt að samtök sem bændur hafa með sér gætu gert. Það er ekki flóknara en svo, þetta mál, að sæmilega skýrir menn geta haldið þessu í góðu lagi eða leitað sér aðstoðar við að koma þessu fram.
    Ég held að það sé kominn tími til að það verði slegið á allar þessar sérstöku hagstofur. Við erum með Hagstofu Íslands, við erum með Seðlabanka, við erum með Þjóðhagsstofnun og við erum með ýmsar opinberar stofnanir sem eru sífellt að reikna og reikna og komast að einhverjum tölulegum niðurstöðum. Það væri betra að lækka skattana og lofa þeim aðilum sem eru í rekstri sjálfir að sjá um sín mál. Ég er viss um að þeir væru miklu hamingjusamari og kæmust miklu betur af. Ég vil alfarið leggjast gegn því að við förum að setja upp eitt báknið í viðbót, hagstofu landbúnaðarins.
    Það eina sem er jákvætt í þessu er að það á að flytja reiknimeistarana frá Hótel Sögu og upp í Borgarfjörð. Mér finnst það jákvæð þróun og þó meira væri. Mætti flytja allar skrifstofurnar upp í Borgarfjörð og væru þær þar vel settar. Það er nefnilega kominn tími til að menn taki eitthvert mark á sjálfum sér og tali ekki alltaf um að atvinnulífið úti á landi sé í lágmarki og geri síðan allt annað í hinu orðinu. Það væri alveg upplagt að sú starfsemi sem fer fram í Hótel Sögu væri flutt upp á Hvanneyri. Það væri mjög jákvætt og ég held að menn ættu að hugsa um það.
    Að öðru leyti ætla ég ekki við þessa umræðu að lengja þetta mjög mikið, en ég hef lesið þetta frv. yfir og það er alveg greinilegt að það sem um er verið að fjalla hér er fjarska einfalt og auðvelt að koma í verk án þess að setja upp einhverja sérstaka stofnun til að annast það. Sú tilhneiging er til ófarnaðar að gera skrifræðið í landinu með þessum hætti meira og flóknara og erfiðara fyrir hinn almenna borgara að skilja hvernig okkar þjóðfélag er. Ég held að það væri nær að beita sér fyrir því að þessari ánauð væri létt af bændastéttinni og hún fengi að vera frjálsari en ekki undir ánauð ríkisstjórnarinnar með þeim hætti sem er í dag.