Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er ástæða til að reyna að flytja eitthvað af starfsemi landbúnaðarins þangað sem landbúnaðurinn er stundaður. Hugmyndir varðandi bætt skipulag landbúnaðar verða ekki til í skrifstofum. Það held ég að sé alveg ljóst. Bætt skipulag í landbúnaði getur einungis farið fram þannig að hugur og hönd starfi saman. Ég skora á hæstv. landbrh. að standa sig nú í því að koma á betra skipulagi í þessum málum.
    Þegar rætt er um landbúnað dettur manni stundum í hug hvort það mætti ekki taka upp stefnu hjá ágætum manni og skoða hvort ekki væri rétt að staldra við og segja ,,glasnost! perestrojka!`` í landbúnaðarmálum og reyna að láta kerfið fara að éta ofan af sér og reyna að spóla pínulítið til baka í því þunglamalega kerfi sem orðið er í kringum landbúnaðinn. Ekki ætla ég að halda því fram að það sé vont fólk í þessu kerfi, síður en svo, en það virðist vera þannig að lögmál kerfa séu fyrst og fremst að þjóna sjálfu sér en ekki þeim sem þau voru stofnuð til að þjóna.
    Það verður aldrei nein hagstofnun sem finnur upp eitthvað betra en heilbrigð skynsemi bænda sjálfra sem er grundvallaratriði. Ég held að því miður hafi menn látið allt of oft glepjast út á einhverjar brautir sem urðu til út frá hugmyndum sem urðu til á skrifborðum. Sem dæmi get ég nefnt að mér finnst það sem ég hef séð til allt of háar kröfur gerðar í sambandi við t.d. fjárhús varðandi kostnað, hvað mikið af steinsteypu og járni fer í slík hús. Það er með ólíkindum og menn fá ekki lánað nema fara eftir tiktúrum sem kerfið setur. Heilbrigð skynsemi fær hvergi þar að koma nálægt. Svo drukkna menn í skuldum þegar búið er að neyða þá út í þetta. Það gengur illa að borga af lánunum.
    Það verður að tryggja að kerfið sé ekki bara að skoða sjálft sig. Það verður að tryggja að kerfið sé ekki bara að skoða hvernig það getur þjónað sjálfu sér enn þá betur og bændur færist alltaf aftar og aftar á skörinni eins og hefur verið að gerast.
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja að lokum aftur að það verður aldrei nein vísindastarfsemi eða hagrannsókn sem tekur fram heilbrigðri skynsemi.