Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umræður neitt að ráði. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og það sérstaklega, sem kom fram hjá honum, að þetta frv. er lagt fram með samþykki þingflokks Alþfl. og ráðherra hans, þó þannig, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að ef verulegur ágreiningur verður um málið á ekki að afgreiða það í vor. Og verður væntanlega fróðlegt að fylgjast með því hvort upp kemur þessi ,,verulegi ágreiningur`` og hver síðan eigi að skilgreina hvað sé verulegur ágreiningur.
    Það er alveg rétt það er ekki deilt um nauðsyn þeirrar starfsemi sem hér á að fara fram heldur hvernig koma eigi henni fyrir. Ég hef varað við því að gera það með því að búa til nýjar ríkisstofnanir. Ég tel að það sé hægt að leita annarra leiða og bið hv. landbn. að kanna hvort ekki sé hægt til að mynda að færa hagfræðingana frá Búnaðarfélaginu eða Búreikningastofu landbúnaðarins. Þeir mega gjarnan starfa á Hvanneyri. Þeir þurfa að sinna kennslu væntanlega þar og það getur farið mjög vel á því. En það er engin nauðsyn að upp spretti ríkisstofnun utan um þessa menn. Mér hefði fundist vera skynsamlegra og a.m.k. finnst mér full ástæða til þess að biðja þá hv. nefnd um að kanna hvort ekki sé hægt að koma þessari heildarstarfsemi og upplýsingastarfsemi fyrir hjá Þjóðhagsstofnun og þá í samstarfi við þá aðila sem áfram mundu starfa á vegum Búnaðarfélagsins, jafnvel samkvæmt sérstökum lögum eins og þeir hafa gert hingað til. Það breytir engu um að sama starfsemi getur þá átt sér stað að Hvanneyri.
    Það er ugglaust rétt að Þjóðhagsstofnun hefur haft margt annað að gera en að sinna þessum reikningum og safna þessum upplýsingum, en ég er þeirrar skoðunar að ef Þjóðhagsstofnun á að rísa undir nafni og reyndar kannski Hagstofa Íslands sé afar nauðsynlegt að samræming sé um slíka starfsemi og þá eðlilegur samanburðargrundvöllur á milli greina og ég efast um það, án þess að ég vilji taka dýpra í árinni með slíkar yfirlýsingar, að það sé boðlegt sem fyrirmynd eða fordæmi fyrir aðra löggjöf að Hagstofa Íslands og Þjóðhagsstofnun, þ.e. fulltrúar frá þessum tveimur stofnunum, myndi minni hluta á móti samtökum og hagsmunaaðilum í ákveðinni grein til þess að niðurstöður frá slíkum stofnunum teljist vera trúverðugri en ella. Þetta er mergur málsins.
    Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það sem efnislega er verið að reyna að ná fram er eðlilegt. Það er spurning hver á að greiða. Það er spurning hvort þetta á að vera ríkisstofnun eða ekki. Mín sjónarmið í þeim efnum þekkja allir. Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að ég undraðist að Alþfl. hefði greinilega kúvent í þessum málum, en það er alveg rétt að auðvitað mátti gera ráð fyrir því í framhaldi af þeim stjórnarskiptum sem urðu í haust og í framhaldi af því þegar forustumenn Alþfl., bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., hurfu frá frjálslyndum sjónarmiðum og tóku upp framsóknarstefnu til að geta rætt á grundvelli hennar við Alþb. um sameiningu þessara tveggja flokka. Á því vildi ég vekja athygli

því að það þýðir ekki fyrir Alþfl. að koma aftur fyrir almenning og segja: Við erum á móti þessu landbúnaðarkerfi. Það þýðir ekkert fyrir Alþfl. að koma síðan og segja: Við heimtum lægra verð á landbúnaðarvörum --- með þeim hætti sem þeir hafa lýst á undanförnum árum. Það verður ekki tekið mark á þeim framar og þegar maður sér slíka kúvendingu eins og hún birtist í þessu máli undirstrikast það, jafnvel þótt forustumenn Alþfl. hafi haft þann fyrirvara að málið eigi ekki að fá afgreiðslu ef verulegur ágreiningur kemur upp í þinginu.