Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Ég verð að byrja á að taka undir það, sem áður var sagt, að það er afskaplega erfitt í þessari skæðadrífu margra merkismála að geta komið vel undirbúinn og vel lesinn til að ræða mál eins og um hagstofnun landbúnaðarins eins og ég helst hefði viljað gera. Ég mun að sjálfsögðu lesa þetta rækilega yfir því þetta held ég að sé mjög gott mál og mjög þarft mál í ákveðinni þróun. Þetta hefur ekkert að gera við nein trúarbrögð um ríkisrekstur eða einkarekstur eða hvort hagsmunasamtökin eigi að ráða yfir peningunum eða alþingismenn eiga að ráða. Þetta er bara ákveðinn þróunarferill sem landbúnaðurinn er að ganga í gegnum og þarf að ganga í gegnum eins og aðrar atvinnugreinar. Við getum ekki alltaf stytt okkur þá leið eins og hv. 1. þm. Reykv. langar til, að spila milljónir eða matador og halda að heimurinn sé svo einfaldur eins og maður hélt þegar maður var innan við fermingu að spila milljónir og eignaðist kannski Austurstræti og Sundhöllina og byggði hótel og græddi á náunganum og var kátur. Svona er ekki íslenska þjóðfélagið, Friðrik Sophusson, og það ættir þú að vita líka. (Gripið fram í.)
    En það sem kom mér upp í pontuna voru þessar miklu áhyggjur hv. 1. þm. Reykv. af afstöðu alþýðuflokksmanna, að Alþfl. liði eitthvað illa út af því þó að hann tæki þátt í því að bera fram svona merkilegt frv. til skoðunar án þess að spyrja hv. 1. þm. Reykv. og hans nánustu um leyfi. Að vísu tók hann það fram, að mér skilst, að trúlofuninni hafi verið slitið í september sl. þannig að það er ekki víst að það þurfi það leyfi.
    En mig langar til að spyrja hv. 1. þm. Reykv.: Hver er afstaða Sjálfstfl.? Er hann einhuga í þessu? Er Egill Jónsson sammála t.d. 1. þm. Reykv.? Er allur Sjálfstfl. á einu máli í afstöðunni? (Gripið fram í.) Nú skal ég taka skýrt fram að hv. 1. þm. Reykv. reyndi að breiða yfir en það skein út úr andlitinu á honum --- um leið og hann birtist í pontunni --- óvildin gegn landbúnaði þó að hann væri að reyna að færa vanda eigin flokks yfir á Alþfl. og hann væri að reyna að breiða yfir þessa óvild gegn landbúnaðinum með því að þykjast svo í aðra röndina vera með þessu. Þetta er einfaldlega mín skoðun.
    Það voru þessi orð sem fengu mig í pontuna núna. Ég hefði gjarnan viljað lesa þetta eitt kvöld og spjalla við m.a. 1. þm. Reykv. um þessi mál áður en ég væri búinn að mynda mér heillega skoðun. En ég bendi á í þessu sambandi líka: Þjóðhagsstofnun hefur unnið mjög þarft verk og hefur verið í mikilli framþróun. Hún hefur oft fengið ósanngjarna gagnrýni, finnst mér. En Þjóðhagsstofnun er gert að mynda grundvöll til fiskverðsákvörðunar. Og hvernig gögn hefur Þjóðhagsstofnun? Þetta eru oft eins til tveggja ára gamlir reikningar sem eru lagðir til grundvallar þegar er verið að ákvarða fiskverð. Af hverju er það? Það vantar ákveðinn marktækan millilið sem getur gefið svör um hvað hefur verið að gerast í sjávarútveginum síðustu 3--4 mánuði. Það er áreiðanlega hugmyndin á bak við þetta mál. Þó svo að einhvern tímann í

fagurri framtíð geti bara ein tölva eða ein hagstofa haft allar svona upplýsingar frá viku til viku eða mánuði til mánaðar þarf vissa þróun. Það þarf ákveðin lifandi gögn sem liggja til grundvallar og ég get ímyndað mér að þau gögn sem unnin verða þá þarna, við skulum segja á svolítið hærra plani, en núverandi búreikningastofa verði í tengslum við þá námið á Hvanneyri, en síðan send áfram til Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar og þar með verði gefnar út skýrslur kannski til margra ára eða ársskýrslur sem koma hálfu eða einu ári á eftir. En það er bara einu sinni þannig í nútímaþjóðfélaginu að hlutirnir gerast svo hratt, þróunin er svo ör að framvindan sem var fyrir tveimur þremur mánuðum er svo breytt núna að það þarf kannski allt aðrar aðgerðir en annars hefði þurft í ýmsum málum. Þess vegna álít ég að grunnhugmyndin með því að stíga það skref að flytja þessa starfsemi og jafnframt að efla hana á Hvanneyri sé til góðs. Og hættan á því að þetta verði eitthvert ægilegt bákn finnst mér óþarfa hræðsla. Ég vil í því sambandi líka bara minnast á að mér finnst þessi trúarbrögð, sem m.a. hv. 1. þm. Reykv. er talsmaður fyrir, að ekkert sé gott nema einhverjir hagsmunaaðilar í viðkomandi greinum geri það eða ráði því, hafi bara sýnt að þau hafi sína vankanta líka. Það hefur sína vankanta að það geta verið ákveðnir hópar innan hagsmunasamtakanna sem ráða öllu og meiri hlutinn og sérstaklega þá minni máttar í heilum greinum eru skildir eftir úti í kuldanum. Ég gæti nefnt svona dæmi sem tengist iðnaðinum og ég gæti nefnt svona dæmi sem tengist versluninni, en ég læt þar við sitja núna.