Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem átti sér stað áðan var afar fróðleg á margan hátt og ummæli hv. 6. þm. Norðurl. e. gáfu mér tilefni til að koma aftur upp. Það er von að hv. þm., ,,sjóðakóngurinn``, sé sammála því að það eigi að setja eitt kerfið á laggirnar í viðbót. Og það þarf líka stjórn. Hann á kannski von á því eða er búinn að semja um að hann fái að sitja í þessari stjórn. Það kæmi mönnum ekki óvart. ( SV: Þú ættir að lesa frv.) Það kemur ekki á óvart. Það væri ekkert sem kæmi manni á óvart í því sambandi og það er hægur vandi að skipa rétta menn frá ýmsum samtökum ef það er búið að semja um það áður. Það veit ,,sjóðakóngurinn`` vel um því hann hefur svo vel kunnað á slíkt í lífinu að hann hefur ekki farið varhluta af því að sitja í hinum ýmsu stjórnum.
    Hins vegar held ég að hér hafi ekki komið fram neitt sem rökstyður í rauninni að setja þurfi enn eina hagstofuna á laggirnar nema þvert á móti. Það er alveg ljóst að það er hægt að koma þessu fyrir í öllum þessum hagstofum sem við eigum um landið og þó að talsmenn sumra þessara stofnana vilji stækka báknið með þessum hætti. Það er athyglisvert að í vinnu hjá þessari nýju stofnun á ekki að vera einn einasti bóndi sem hefði þó kannski haft þekkingu á þeirra málum heldur er talað um að allt séu háskólamenntaðir menn án þess að ég hafi neitt við þá að athuga. En það hefði verið ekki óskynsamlegt að a.m.k. einn af þeim þremur sem gert er ráð fyrir væri bóndi og kæmi þá að notum hans þekking í landbúnaði og sú vinna sem hann hefur innt af hendi í sínu starfi. ( SV: Í frv. eru fimm.) Já, það var ritari. Ég geri ekki ráð fyrir að bændur geti verið ritarar. Þeir eru ekki lærðir til þess. En það er alveg ljóst að hér er enn frekar verið að útfæra það kerfi sem er í landbúnaði í dag og hefur ekki gengið vel. Sú miðstýring sem í landbúnaði er hefur ekki verið farsæl, hvorki fyrir bændur né fyrir fólkið í landinu.
    Ég las í blaði um helgina að bóndi fær í sinn hlut *y1/3*y af útsöluverði vöru. Og mér er spurn: Halda menn að bændur búi svo vel að þeim dugi slíkt þegar er búið að taka bæði til ríkisins til að halda uppi ,,apparötum`` eins og Hagstofu landbúnaðarins og í alla vega sjóðakerfi sem menn þekkja úr landbúnaðinum, millifærslur, niðurgreiðslur og alla vega tilfæringar sem eru algerlega ónauðsynlegar? Það vita allir hér að niðurgreiðslur í landbúnaði eru algerlega ónauðsynleg millifærsla. Það eitt að afnema matarskattinn þýddi að það þyrfti ekki að greiða neitt niður og væri þá kominn miklu eðlilegri gangur á mál en nú er.
    Bændur eru ekki að biðja um að það sé sett upp hér enn ein stofnunin. Það verður þeim ekki til framdráttar. Ég er sannfærður um að bókhaldið er miklu betur komið hjá þeim sjálfum og ýmsir aðrir þættir en hjá slíkri stofnun. Ég tel alveg ljóst að það eigi að hætta við þessa stofnun og láta við svo búið standa.