Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég átti ekki von á því að þurfa að standa aftur í þessum ræðustól út af þessu máli, en nú hefur okkur borist liðsauki í þessa hv. deild. Hingað er kominn nýr þingmaður, hv. þm. Benedikt Bogason, 16. þm. Reykv., og hann sér miklu betur en aðrir þingmenn því að hann sá á mér óvild í garð landbúnaðarins eins og hann orðaði það þegar ég stóð í ræðustól, en heyrði ekki, enda voru orðin allt önnur. Eins og kannski kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni o.fl. var enginn ágreiningur um efnisatriði þessa frv., um það að sú starfsemi sem lagt er til að færist til þessarar stofnunar eigi að fara fram. En ég óska bæði Borgfl. og hv. þm. til hamingju með þessa ágætu sjón þingmannsins sem sér miklu betur en aðrir hv. þm.
    Þessi hv. þm. spyr mig að því hver sé stefna Sjálfstfl. vegna þess að ég hafði gert að umtalsefni í minni ræðu stefnu Alþfl. Áður en ég vík að þessu mætti kannski til fróðleiks og skemmtunar spyrja að því hvers vegna hv. þm. sagði ekki frá því hver væri stefna Borgfl. í þessu máli. Jú, hann svaraði því að nokkru með því að segja að hann ætti eftir að lesa frv. en mundi hugsanlega gera það í kvöld. Áður en þetta hafði gerst hafði þó einn borgaraflokksmaður, kannski fyrrverandi nú, ég veit það ekki, tekið til máls og lýst sinni skoðun á málinu sem var heldur önnur en hv. þm.
    Ástæðan fyrir því að ég gerði að umtalsefni skoðun Alþfl. er einfaldlega sú, ef hv. þm. veit það ekki, að hér er á ferðinni stjfrv. og stjórnarfrumvörp eru frumvörp sem stjórnarflokkar verða að hafa samþykkt áður en lögð eru fram á Alþingi. Stjórnarandstaðan sér þessi frumvörp oft ekki fyrr en þau eru lögð fram og eins og hv. þm. sagði sjálfur vill svo til í mörgum tilvikum að þingmenn hafa ekki einu sinni lesið frumvörpin þegar þau eru tekin til 1. umr. Svo er um hv. þm. að eigin sögn. Þetta segi ég hv. þm. vegna þess að það skýrir að Sjálfstfl., hvorki hann í heild né heldur þingflokkur sjálfstæðismanna, hefur ekki fjallað um þetta frv. á fundi. Hins vegar liggur það fyrir að nokkrir þingmenn Sjálfstfl. hafa tekið til máls í þessum umræðum, þar á meðal þrír ágætir neðrideildarmenn, og lýst sinni skoðun á frv. Enginn þessara manna hefur afskrifað þetta frv. með öllu heldur beðið ákveðna nefnd, hv. landbn. þessarar deildar, að fjalla um frv. og grennslast fyrir um ýmis atriði. Síðan hefur a.m.k. einn af þessum þingmönnum borið fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra, en það er sá sem hér stendur, og hæstv. ráðherra svaraði honum.
    Þar kem ég kannski að því sem heitir í munni hv. þm. trúarbrögð. Þegar hann talar um trúarbrögð á hann við það að sumir þingmenn, og þá væntanlega sá sem hér stendur, megi ekkert sjá í nafni ríkisins. Þeir vilja hafa allt í nafni hagsmunasamtaka og fyrirtækja úti í bæ. Það veit ég, svo lengi hef ég þekkt hv. þm., að hann skilur að ef menn hafa þá skoðun, sem hann virðist hafa, að það skipti engu máli hvort starfsemi sé hjá ríkinu eða einhvers staðar úti í bæ og þess vegna geti allt verið hjá ríkinu, þá

getur slíkt endað með ósköpum.
    Hv. þm. er vel kunnugur í öðrum löndum, jafnvel í löndum sem eru í nágrenni við þau sem mesta miðstýringu hafa. Hann veit nákvæmlega jafnvel og ég hvað gerist ef öll starfsemi sem snertir atvinnuvegina fellur til ríkisins. Ég veit að hv. þm. deilir þeim skoðunum með mér að slíkt má ekki henda hér á landi. Þess vegna er mér nákvæmlega sama þótt þetta séu kölluð trúarbrögð. Það sem skiptir máli er að við áttum okkur á því, bæði ég og hv. 16. þm. Reykv., ef það er rétt, í hvert skipti sem einhver starfsemi færist frá einkaaðilum til ríkisins vegna þess að slíkt getur haft fordæmisgildi. Á þetta benti ég mjög rækilega í minni ræðu og þetta skildu þeir sem heyrðu ræðuna en sáu hana ekki, en hv. þm. held ég að sé eini þingmaðurinn sem segist hafa séð óvild mína í garð landbúnaðarins.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram í þessari ræðu.
    Ég vil enn fremur nota tækifærið til að taka undir það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að það þarf ugglaust að skoða stjórn þessarar stofnunar betur en gert hefur verið. En einmitt samþykkt samtaka í landbúnaði bendir til þess að þeir hafi nákvæmlega sömu áhyggjur af þessu máli og sá sem hér stendur. Það hefði verið æskilegt líka vegna þess sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vesturl. að fá úr því skorið hvort hagstofustjóri og forstjóri Þjóðhagsstofnunar séu á því að þessi stofnun eigi að vera ríkisstofnun. Ég skil það vel sem kom fram í ræðu hv. þm. um skoðanir þessara tveggja manna, en hann nefndi ekki hvort þeir hefðu lagt til að þessi stofnun yrði ríkisstofnun. Það er allt annað mál. Þetta bað ég nefndina um að kanna.
    Ég hef nú svarað hv. þm. hver sé stefna Sjálfstfl. í þessu máli. Hún hefur ekki verið mótuð af sömu ástæðu og hv. þm. veit, að hann hefur ekki haft tækifæri til að fara glögglega ofan í þetta mál. En það er athyglisvert að hv. þm. sagði ekki hver var skoðun Borgfl. sem er líka stjórnarandstöðuflokkur. Það væri kannski í leiðinni, fyrst hv. þm. er búinn að biðja um orðið, fróðlegt að fá að vita: Styður Borgfl. stjórnina? Ef Borgfl. styður ríkisstjórnina er auðvitað afskaplega eðlilegt að hv. þm. fái að skoða þessi frumvörp áður en þau eru lögð fram. Staða mála á Alþingi í dag er sú að sumir
borgaraflokksmenn styðja ríkisstjórnina þegar á þarf að halda og aðrir ekki. Það er kannski kominn tími til þess að nýr forustumaður Borgfl., sem hefur sest hér á Alþingi, hv. Benedikt Bogason, geri Alþingi skýra grein fyrir því hver hans staða gagnvart ríkisstjórninni er. Ef hann styður ríkisstjórnina eins og sumir af hans samflokksmönnum á hann að sjálfsögðu heimtingu á því að fá að skoða stjórnarfrumvörpin áður en þau eru lögð fram rétt eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sem nú er nýkominn inn á þingið aftur eftir langvarandi veikindi og ég býð hann velkominnn. ( ÓÞÞ: Hvaða mál er á dagskrá?) Það er von að spurt sé þegar mál fara út um hvippinn og hvappinn, en til upplýsingar fyrir ritarann, sem virðist ekki vera læs, skal ég benda honum á að það mál sem er á dagskrá er frv. til l.

um Hagstofnun landbúnaðarins, stjfrv. nr. 413, á þskj. 773. Ég vona að þetta svar dugi honum þó að skýr svör dugi honum sjaldnast.