Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hv. 5. þm. Suðurl. hefur spurt á þskj. 652: ,,Hvað hefur samgrh. aðhafst vegna þál. sem samþykkt var á síðasta þingi um að láta gera kostnaðaráætlun um gerð vegar með suðurströnd Reykjanesskaga á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur?``
    Svarið er að hjá Vegagerð ríkisins hefur verið unnið að þessu máli og þar hefur verið gerð yfirlitsáætlun um gerð þessa umrædda vegar. Ástand núverandi vegar var skoðað og metið og slegið á kostnað við endurbætur og/eða uppbyggingu vegar á þessari leið. Var þá annars vegar áætlaður kostnaður miðað við að vegurinn yrði byggður upp með malarslitlagi og reyndist kostnaður þá vera um 350 millj. kr., en hins vegar miðað við bundið slitlag, en þá er áætlað að kostnaður verði 90 millj. kr. meiri eða um 440 millj. kr. Þessar tölur eru á áætluðu verðlagi ársins 1989.
    Það er skemmst frá að segja að telja verður að áætlanir þær sem gerðar hafa verið og ég hef vitnað til séu nægjanlega ítarlegar til að ákveða framkvæmdaröð og fjárveitingar. Þessar niðurstöður verða lagðar fyrir þingmenn viðkomandi kjördæma, Suðurlandskjördæmis og Reykjaneskjördæmis, við gerð vegáætlunar í vor og þá er í raun ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þeirra og ræða í framhaldi af því framkvæmdaröð og fjárveitingar til þessa verks ef svo sýnist.