Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Mig langar aðeins til að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við þessar hugmyndir, en að sjálfsögðu þarf að raða þessu í rétta röð. Mér finnst mjög mikilvægt það nýja viðhorf sem er komið upp og hefur komið fram á allra síðustu mánuðum í sambandi við hvaða möguleikar opnast við að flugvellirnir á Egilsstöðum, hugsanlega á Húsavík og Sauðárkróki, Akureyri, verði gerðir svo vel úr garði að þar geti athafnað sig góðar gerðir af flutningaflugvélum. Það sem mér finnst svo athyglisvert við þessa hugmynd í fyrsta kasti er að vegurinn tengir saman laxeldissvæðin þarna í Grindavík og úti í Þorlákshöfn og styrkir jafnvel alls kyns sérvinnslu sem er að hefjast um allt Suðurland núna. Óseyrarnesbrúin hefur allt í einu opnað augu manna fyrir miklu betri möguleika en áður að tengjast hráefni í Þorlákshöfn. Það síðasta sem ég heyrði var að menn væru jafnvel að fara í sérvinnslu austur á Hvolsvelli, að búa til dýra vöru sem mjög er hagkvæmt að flytja út með flugi. Þessi vegur mundi fullgerður þjóna mjög vel því að tengja þetta svæði flugsamgöngum. Svo vil ég benda sagmrh. á að hnippa í Vegagerðina með að þennan veg er líka hægt að hugsa sér að byggja í einhverjum áföngum.