Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og það að þessi könnun og kostnaðaráætlun hafi verið gerð.
    Það gerist í hverri umræðu þegar menn horfa til framtíðarinnar að alltaf rísa upp einhverjir sem þora ekki að horfa á hið nýja tungl, sem eru svo fastir og íhaldssamir að halda fast í hið gamla tungl. Það er undarlegur hlutur. Hér er ekki verið að spyrja eftir neinum útlátum á peningum. Það er verið að fá gögn í hendurnar til þess að menn í tveimur kjördæmum geti gert áætlanir um framtíðina.
    Mönnum væri nær að huga að því sem hefur gerst þar sem ráðist er í stórframkvæmdir og áætlað að taka peninga af kjördæmum til að fjármagna þær. Það væri nær fyrir slíka menn, ekki síst hv. 4. þm. Vesturl., að leggjast í lið með ráðherra sínum að finna leiðir til að þurfa ekki að taka þá peninga. Því það er rétt sem hann sagði að það eru víða slæmir vegir. Ég þekki það úr mínu kjördæmi að vegirnir eru víða farnir. Við höfum tekið svo mikið af viðhaldspeningunum og sett í varanlega vegagerð að til vandræða horfir. Það hefur berlega komið í ljós á þeim snjóþunga vetri sem við höfum haft núna og verið dýrt því niðurgrafnir vegir kalla á mikinn snjómokstur.
    Ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. 16. þm. Reykv. sagði og ég ætlaði að minnast á í minni seinni ræðu í sambandi við fiskeldið. Fiskeldið er stórkostleg matvælaframleiðsla sem á sér stað í stórum stíl í Þorlákshöfn og á Suðurlandi öllu þar sem menn fullvinna afurðir og þurfa að koma þeim í flugi til útlanda. Þess vegna er það þessi vegur sem þeir horfa mjög á að verði gerður.
    En ég er þakklátur ráðherranum fyrir að hafa beitt sér fyrir því að hér liggur fyrir kostnaðaráætlun um væntanlegan veg með suðurströnd. Það er vinnugagn í hendurnar á þingmönnum tveggja kjördæma.