Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Eins og reyndar kom fram í svari mínu áðan tel ég að það liggi í sjálfu sér fyrir allar þær upplýsingar sem til þarf til að taka afstöðu til þess hvenær menn telja ráðlegt að ráðast í þessa framkvæmd eða hvort. Ég geri ekki lítið úr því að hér væri á ferðinni hin þarfasta framkvæmd. En það er líka rétt að hafa í huga að þetta er allmikið mannvirki sem er verið að tala um vegna þess að vegurinn sem þarna er fyrir ef veg skyldi kalla er þannig á sig kominn að það er nánast um algera nýbyggingu að ræða. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að í þessu tilviki eins og öðrum hljóti þetta að þurfa að skoðast í samhengi við aðrar brýnar framkvæmdir og koma á sínum stað inn í framkvæmdaröð eða forgangsröð verkefna hjá viðkomandi kjördæmun eins og hér var reyndar réttilega minnt á af hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Karli Steinari Guðnasyni.
    Það er nú einu sinni svo að það er okkar hlutskipti þegar fjallað er um vegamálin að skipta naumt skömmtuðum peningum til málaflokks þar sem þörfin er ærin. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt og á réttum tíma að þetta verði rætt í tengslum við endurskoðun vegáætlunar, þingmenn viðkomandi kjördæma ásamt sérfræðingum Vegagerðarinnar fari yfir hvort og þá hvenær eigi að reikna með því að hafist verði handa um framkvæmdir á þessum stað. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé næsta víst að þarna muni koma varanlegur og uppbyggður vegur. Spurningin sé frekar um hvenær.