Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Öðru hvoru hafa á undanförnum árum birst kannanir um verð á matvælum hérlendis og erlendis, bæði í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Reynsla þeirra sem ferðast utan og einnig reynsla þeirra sem hafa búið erlendis um einhvern tíma, þegið þar laun og þurft að framfleyta sér, hefur verið sú --- og niðurstaðan í þessum könnunum --- að verð á matvælum sé mun hærra hér á landi en víða í nágrannalöndunum. Þótt nokkur munur sé á milli landa má óhætt halda því fram af þeim ástæðum sem ég hef tilgreint að matvæli séu oft ódýrari erlendis og kostnaðarhlutdeild þeirra í framfærslu einstaklingsins lægri en hér. Matvæli eru nauðsynjavörur sem ekki er hægt að vera án og það er erfitt að skilja hvers vegna þau þurfi að vera dýrari hér en t.d. í nágrannalöndum okkar sem eru um margt svipuð okkur. Ég hef sterkan grun um að ráðstafanir og ákvarðanir stjórnvalda ráði þar miklu um. Er skemmst að minnast langra og heitra umræðna um hækkaðan söluskatt á matvæli á síðasta þingi. Þáv. stjórnarandstaða gerði markvissar og einbeittar tilraunir til að koma í veg fyrir hinn illræmda matarskatt en því miður án árangurs. Þáv. ríkisstjórn og þá einkum fjmrh. var ítrekað bent á þau lönd í Evrópu sem annaðhvort hefðu engan söluskatt eða virðisaukaskatt á matvælum eins og Bretland eða þau lönd þar sem skattprósentan væri lægri á matvælum en á öðrum varningi. En því miður, allt kom fyrir ekki. Matarskatturinn varð fljótt íþyngjandi fyrir pyngju heimilanna og þrátt fyrir tilraunir til verðstöðvunar á undanförnum mánuðum er nú svo komið að langfryst laun manna standa tæpast undir venjulegum heimilisrekstri á mörgum heimilum landsins. Þar vegur matvælakostnaður þungt.
    Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. varðandi þennan kostnað til þess að fá óyggjandi svör frá stjórnvöldum um þessi mál þar sem ég tel að slíkar upplýsingar hljóti að vera mjög mikilvægar t.d. við gerð kjarasamninga. Fsp. þessi var reyndar lögð fram fyrir nokkru þegar kjarasamningar voru í vændum. En það hefur dregist að svara henni þannig að þegar hafa verið gerðir samningar við hluta launþega, en aðrir samningar eru þó enn ógerðir.
    Ég hef því leyft mér, eins og ég sagði áðan, að bera fram fsp. á þskj. 614.
,,1. Er það rétt að verð á matvælum sé mun hærra hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar?
    2. Ef svo er hve mikill er sá munur og hverjar eru helstu ástæður fyrir slíkum verðmismun á lífsnauðsynjum? Hyggst viðskrh. grípa til ráðstafana til að eyða eða draga úr honum?``