Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi hvort rétt sé að verð á matvælum sé hærra hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar. Svarið er já. Ég tel að þetta sé rétt.
    Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi hver munurinn sé og hverjar séu helstu ástæðurnar fyrir honum.
    Fyrst verð ég að taka fram að samanburður á verði einstakra vöruflokka milli landa er ákaflega vandasamur. Þetta á sérstaklega við þegar ekki eru borin saman nákvæmlega sömu vörumerki. Af þessum sökum hafa kannanir Verðlagsstofnunar á verðlagi erlendis einkum beinst að verði á þekktum vörumerkjum matvöru, tækjum til heimilisnota, bifreiðum og þess háttar, en síður að verði á svokölluðum lífsnauðsynjum, svo sem landbúnaðarvörum, grænmeti, ávöxtum og þess háttar sem fsp. lýtur einkum að. Á því eru augljós vandkvæði að bera saman verð á slíkri vöru milli landa. Verðlagsstofnun hefur þó gert slíkan samanburð í takmörkuðum mæli. Það hefur komið í ljós, sem engan undrar, að verð á matvælum í okkar nágrannalöndum er ákaflega misjafnt en yfirleitt lægra eftir því sem markaðurinn er stærri og innflutningsverslun með matvæli frjálsari og er þar Bretland kannski gleggsta dæmið.
    Ég hef látið dreifa hér töflu sem sýnir dæmi um mismun á matvælaverði í Reykjavík annars vegar og í Osló og Glasgow hins vegar samkvæmt verðupptöku Verðlagsstofnunar. Í mörgum tilfellum er matvælaverð mun lægra í nálægum löndum en hér á landi, í öðrum er munurinn minni og þess eru dæmi að einstakar matvörur séu hér ódýrastar og þar er fyrst að telja fiskinn, en einnig virðist verð á brauði vera hér lægra en er t.d. í Noregi.
    Það er rétt að taka fram að Osló er talin heldur dýr borg en Glasgow er aftur á móti eins og margir Íslendingar þekkja þekkt fyrir lágt vöruverð.
    Þessi samanburður er ekki einfaldur eða einhlítur. Ýmsar skýringar sem hafa verið gefnar á þessum mun. Þar vil ég fyrst nefna hvað varðar innfluttar vörur flutningskostnaðinn. En það sem skiptir kannski mestu máli er það að við erum með annars konar skattakerfi en Norðurlönd. Við leggjum meira upp úr óbeinum sköttum en nágrannar okkar og þar af leiðandi er samanburður á vöruverði í búðunum ekki einhlítur mælikvarði á framfærslukostnaðinn og lífskjörin þegar tillit er tekið til skattanna. En við höfum hér á landi lægri beina skatta.
    Það er líka rétt að okkar tiltölulega smái markaður gefur ekki færi á jafnhagkvæmum innkaupum og innflutningsverslunin er hér nokkuð dýr. Þá eru umboðslaun erlendis enn verulegur þáttur í verði á innfluttum matvælum. Loks kem ég að því sem kannski skiptir mestu máli og það er að framleiðslukostnaður á búvörum hér á landi er hár og hærri en í mörgum öðrum löndum og sú staðreynd að við flytjum ekki inn neitt af þeim vörum.
    Ég held að þetta séu aðalskýringarnar. Hér hef ég drepið á margt sem máli skiptir. Ég tel það

fjarstæðukennt að kenna þennan verðmun við svonefndan ,,matarskatt`` sem nefndur var af fyrirspyrjanda. Almennur söluskattur á flestar neysluvörur sem upp var tekinn um áramótin 1987 og 1988 er að sjálfsögðu þáttur í þessu máli, en ég minni á að þá voru niðurgreiðslur jafnframt auknar til þess að mæta áhrifum þeirrar sjálfsögðu og nauðsynlegu breytingar á verð mikilvægustu matvöru. Það stendur enn.
    Ég tek það fram vegna spurningar um það hvort ríkisstjórnin hafi í huga aðgerðir til að draga úr eða eyða þessum mismun á verði lífsnauðsynja hér á landi og í nágrannalöndum að það er sjálfsagt mál að athuga alla þætti þessa máls. Í upphafi þarf náttúrlega að gera betri samanburðarathuganir á verði lífsnauðsynja hér á landi og í nálægum löndum. Það hefur ekki verið gert. Slík athugun er fyrirhuguð hjá Verðlagsstofnun síðar á þessu ári. Ég bið þingmenn að taka þann lista sem ég dreifði á borðin vegna þessarar fyrirspurnar sem dæmi eingöngu en ekki sem vísindalega niðurstöðu. En mér fannst erfitt að tala um þetta mál án þess að þingheimur hefði fyrir framan sig nokkur dæmi um sæmilega sambærilegar tölur um matvælaverð.
    En eins og ég sagði þarf að athuga alla þætti málsins. Það þarf að kanna möguleika þess að auka samkeppni í verðmyndun á matvælum. Það þarf jafnan að athuga mörkin á milli innflutnings og innlendrar framleiðslu frá sjónarmiði hagsmuna neytenda en um leið að gæta þess að Íslendingar hafi sjálfsbjargarbúskap í vöruframleiðslu á mikilvægustu lífsnauðsynjum. En aukin hagkvæmni í búvöruframleiðslunni er og verður eitt mikilvægasta atriði þessa máls.