Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi vakti sérstaka athygli á því að verð á matvælum virtist vera lægra í Glasgow og gat sér þess til að þar mundi skýringin vera óbein skattlagning á matvælum. Ég held að það sé veigalítið atriði til að skýra þennan mun þó að það sé vissulega rétt að þar muni óbeinir skattar á matvælum lægri en hér. Mergurinn málsins er sá að þeir sem byggja Bretlandseyjar njóta hins besta af báðum heimum. Þeir flytja inn stórlega niðurgreiddar landbúnaðarvörur frá meginlandi Evrópu, þeir flytja inn landbúnaðarvörur frá fornum nýlendum Breta, t.d. Nýja-Sjálandi og Ástralíu, þar sem framleiðslukostnaður er einna lægstur í heimi. Þetta er meginskýringin á því hversu matvælaverð er lágt á Bretlandseyjum. Þetta vita allir sem vita vilja. Hins vegar vil ég benda á að þarna er líka þriðja atriðið sem veldur miklu um þennan mun. Það er einfaldlega að lífskjör eru miklu betri almennt á Íslandi, tekjur miklu hærri en er í Glasgow. Ég held að þótt menn vildu skipta á verðinu á ostum, smjöri, beikon og eggjum --- því miður sýnir taflan ekki verð þeirrar vöru í Glasgow, en ég veit af eigin reynslu að egg eru þar ódýr, enda flutt inn frá öðrum löndum ef verkast vill, m.a. frá Austur-Evrópulöndum ef þau eru ódýrust þar --- þá vilja menn ekki skipta á kjörum við þá þjóð sem þar býr, einfaldlega af því að hér eru tekjurnar miklu hærri.