Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir hans svör. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hefur komið fram. Ég tel mikinn feng í að þetta sé rannsakað, en það þarf að skoða fleira. Það þarf t.d. að skoða hvernig landbúnaður í þessum löndum er styrktur. Það eru yfir 30 liðir t.d. í Noregi þar sem landbúnaðurinn er styrktur með ýmsum hætti. Og í Bretlandi, til þess að framleiðslan haldist þar, er landbúnaður styrktur þannig að það sem þeir framleiða seljist þó að innflutningur kæmi svo til viðbótar. Síðan þarf líka að skoða hver yrði dreifingarkostnaður hér ef ætti að flytja inn landbúnaðarvörur t.d. og dreifa þeim um landið.
    Það verður sem sagt að skoða allar hliðar á þessu máli til þess að það sé eitthvert vit í umræðum um þessi mál. Því miður er það af skornum skammti oft og tíðum.
    En ég fagna því og geri það af heilum hug að þessi mál séu öll skoðuð og auðvitað verður að lækka matarskattinn. Það verður að lækka matarskattinn því hann er með meiri háttar mistökum sem hafa verið gerð í íslenskum stjórnmálum lengi.