Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Ég tek undir nauðsyn þess að lækka matarverð í landinu. Það er mjög nauðsynlegt, enda eru það sannindi að fleira er kjör en króna. Verkalýðshreyfingin hefur lagt afar mikla áherslu á þetta og mun gera áfram. En mig langar til að vitna til Félagstíðinda BSRB þar sem er samanburður á framfærsluvísitölu milli ára. Þar segir að árið 1968 hafi vísitölufjölskyldan eytt 32% í matvörur, en árið 1988 er það komið niður í 20,5%. Þetta segir þá sögu almennt að lífskjör hafa mjög batnað á þessu tímabili og fólk hefur haft ráðrúm til að eyða tekjum í fleira en matvæli. En þetta eru þrátt fyrir það mjög athyglisverðar tölur.
    Það sem mig langar til að spyrja er hvort ráðherra hefur handbærar tölur sem segja: Hvað mundi t.d. smjör og aðrar landbúnaðarafurðir kosta ef þær væru ekki svo niðurgreiddar sem þær eru, almennar landbúnaðarvörur? Það væri mjöðg fróðlegt að fá að vita það, en einmitt niðurgreiðslurnar eru þáttur í því að halda matarverðinu niðri.
    Ég tel að einn helsti vandinn í verði matvæla sé innflutningsverslunin, hana megi mjög bæta. Dreifingaraðilar eru of margir, innflutningsaðilar of margir, verslanahallir of margar og íburðarmiklar. Allt hjálpast þetta að því að gera matarverðið óhóflega hátt í landinu. Það þarf að gera mjög mikið átak og spurningin er sú hvort ráðuneytið getur og þá í samvinnu við aðra hlutast til um að koma innflutningsversluninni í betra horf en er í dag.