Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Þetta er hin þarfasta umræða. Að sjálfsögðu verða stjórnvöld á hverjum tíma að leita allra ráða til að halda hinum brýnustu lífsnauðsynjum almennings í algeru lágmarksverði. Þessu þurfum við líka að hyggja að hér á landi. Við getum ekki haldið áfram að stunda landbúnað nema allur almenningur geti leyft sér að kaupa brýnustu landbúnaðarafurðir. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þann lista sem hér var lagður fram með Glasgow-verði annars vegar og verði hér á landi hins vegar þó að sá samanburður sé kannski ekki fullkominn vegna þess að það er afskaplega erfitt að bera þessi mál saman frá einu landi til annars. Þar þarf að gæta svo margra atriða.
    En svo er eitt að lokum. Ég hef frétt það frá góðum heimildum að Svisslendingar t.d. geti fengið landbúnaðarafurðir á miklu lægra verði með því að skreppa yfir landamærin til Frakklands. En þeir segja sem svo: Sagan hefur kennt okkur að við þurfum að vera sjálfum okkur nægir með landbúnaðarframleiðslu og það er liður í ævarandi sjálfstæðisbaráttu okkar að halda áfram að framleiða landbúnaðarvörur.