Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Öll getum við verið sammála um eitt og það er að finna leiðir til að lækka verð á matvörum. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá töflu sem hann dreifir um verð. Þar kemur það kannski í ljós, sem ekki hefur nóg borist inn í umræðuna á síðustu vikum, að matarverð á Íslandi, verð á brýnustu nauðsynjum er ekkert ósvipað því sem gerist í Osló. Mér þætti vænt um ef ráðherrann sendi Neytendasamtökunum þessa skýrslu. Þetta kemur fram á mjólkurvörum og fleiri vörum.
    Hv. þm. Karl Steinar ræðir um niðurgreiðslur og telur að það þurfi að taka þær inn í. Nú vitum við að margar þjóðir og flestar þjóðir sem við þekkjum greiða niður matvæli. Ég vil samt taka undir það með hv. þm. að það er áreiðanlega hægt að lækka verð bæði á innlendum og erlendum matvælum. Það eru t.d. 1200 heildsölur á Íslandi í því að flytja inn í landið. Það eru yfir 7000 störf við þau verkefni að flytja inn vörur í þetta land. Það eru hér um bil jafnmargir í heildsölunni og í smásölunni. Þetta er ófært og það er mikið verkefni fyrir þessa ríkisstjórn að taka á þessum málum.
    En ég hefði talið eðlilegt í kringum þá kjarasamninga sem nú eru í gangi að við hefðum lagst í það verkefni eitt að huga að því hvernig við getum komist frá hinum ógæfusamlega skatti sem matarskatturinn hefur verið þjóðinni því vissulega eru það margar greinar landbúnaðarins sem bera hann af fullum þunga. Ég nefni kartöflurnar sem nú hafa verið mjög inni í umræðunni. Ég hygg að 35 kr. af kg séu söluskatturinn á þeirri vöru. Svo er með hrossakjöt og fleiri vörur. Ég held að þar sé stórverkefni fyrir ríkisstjórnina að huga að því verkefni hvernig hún kemst frá þessum vandræðalega matarskatti og það verður að gerast eigi síðar en með upptöku virðisaukaskatts. Allar verstu hrakspár um matarskattinn hafa því miður ræst.