Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka forseta að leyfa mér að gera enn athugasemd. Mér láðist, og það var ekki viljandi yfirsjón, að svara beint spurningu hv. fyrirspyrjanda um breytingar á skattlagningu á matvælum. Ég svara henni þannig að það er stefna þessarar stjórnar að halda aftur af verði á matvælum með öllum tiltækum ráðum sem skynsamleg eru og þar er skattakerfið ekki undanskilið. Hins vegar vara ég þingmenn við því að velja það sem einu skýringuna á háu matvælaverði á Íslandi að hér sé söluskattur á matvælum. Það er niðurstaða kannana í öðrum löndum að lægri skattar á matvælum gagnist ekki best þeim sem lægstar tekjur hafa. En auðvitað fer þetta eftir því hvernig skattakerfin eru að öðru leyti.
    Þar með er ég kominn að máli hv. 8. þm. Reykv. sem hélt því fram að söluskatturinn væri skýringin á háu matvælaverði hér og muninum á því og því sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Hann nefndi meginlandsríkin. Ég vil benda hv. þm. á að auk innflutnings til Bretlandseyja frá Eyjaálfu, Austur-Evrópu og Ameríku og frá öllum þeim löndum sem framleiða matvörur með ódýrum hætti njóta Bretlandseyjar þess að flytja inn stórlega niðurgreiddar vörur frá meginlandi Evrópu, en þar er eins og kunnugt er umfangsmesta niðurgreiðslukerfi á búvörum sem þekkist í heiminum, samkvæmt hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópubandalagsríkja.
    Það er rétt hjá hv. þm. að það er mishár skattur í löndum eftir því um hvaða vörur er að ræða og víða er matvælaskatturinn lægri en annars staðar. Þetta er samt alls ekki meginskýringin eins og ljóst má verða af því að víða veldur niðurgreiðslukerfið frá fjórðungi til helmingi og jafnvel enn hærri hlutföllum af verðinu sem dregur það niður. Þetta er spurning sem menn þurfa að velta fyrir sér. Vilja menn skattleggja allan almenning til aukinnar niðurgreiðslu, og í Evrópu er allur almenningur að sjálfsögðu skattlagður til þess að gera þetta, til þess að halda frekar aftur af verðinu? Við höfum reyndar ákveðið að hafa hér niðurgreiðslur. Við erum með niðurgreiðslur á búvörum sem valda því að verð á mikilvægustu vörum eins og mjólk og kjöti er fjórðungi til helmingi lægra en það annars væri ef niðurgreiðslnanna nyti ekki við að gefnum kostnaði og skattakerfi. Þetta gef ég hér líka sem svar við ábendingum hv. 9. þm. Reykn. Því miður hef ég ekki á hraðbergi nákvæmar tölur um þetta, en mun að sjálfsögðu sjá til þess að þingheimi verði látnar þær í té og tek þetta sem tilefni til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri við þingmenn.
    Þetta vildi ég segja og ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda og öðrum sem hér hafa talað að það er mikil þörf á því að gera svo vandaða könnun sem frekast er kostur á þeim mismun sem er á matvælaverði milli Íslands og annarra landa. Þar dugir ekki að taka á málinu á þann hátt sem gert er á þessu blaði, sem ég hef hér dreift til þess að þétta hugi manna um þetta mál. Það verður að gera þetta í heildarsamhengi, samhengi neyslu og

þjóðhagsreikninga. Það vil ég að verði gert og mun beita mér fyrir því að Verðlagsstofnun, Þjóðhagsstofnun og Hagstofa vinni saman slíka vandaða athugun því skilningur á því máli er undirstaða þess að við getum komið ráðum við til þess að halda aftur af matvælaverðinu.
    En ég endurtek að meginskýringin á lágu matvælaverði á Bretlandseyjum er hinn frjálsi innflutningur Breta á matvælum hvaðan sem þau gefast ódýrust.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en þakka undirtektir þingmanna við þær hugmyndir sem við í sameiningu höfum hér mótað, hv. fyrirspyrjandi og ég, um þörfina fyrir athuganir á þessu máli og endurtek að það er stefna þessarar stjórnar að draga úr matvælakostnaði í bráð og lengd, en þar mun mikilvægast verða að stuðla að hagkvæmri framleiðslu matvæla á Íslandi.