Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þessi umræða er hin gagnlegasta þrátt fyrir þröngar tímaskorður. En það kemur vitaskuld í ljós að það er afskaplega erfitt að gera samanburð á milli landa á vöruverði ekki síst á matvælum. Því ræður, eins og kemur fram, í fyrsta lagi skattlagning á þessar vörur sem er mismunandi eftir löndum, í öðru lagi niðurgreiðslur sem eru mjög mismunandi og landbúnaðarpólitík almennt varðandi þær vörur sem eru landbúnaðarframleiðsla.
    Í flestum eða öllum löndum Vestur-Evrópu eru niðurgreiðslur mun hærri en hér á landi á landbúnaðarvörum og styrkir hins opinbera í einu og öðru formi til landbúnaðarins eru hærri og meiri í Vestur-Evrópulöndum yfir höfuð en hér á landi. Þetta hefur auðvitað ekki lítil áhrif á vöruverðið. Ég bendi á þetta vegna þess að þetta sannar hversu erfitt er að taka beinan samanburð á verði. Það þarf að taka miklu fleiri atriði þar inn í. Ég skal ljúka þessum orðum, hæstv. forseti, með því að benda á, eins og hæstv. landbrh., að ef samanburðurinn næði yfir fleiri vörutegundir, hann nefndi vefnaðarvöru, við skulum segja fatnað í Glasgow og Reykjavík, þá held ég að munurinn yrði heldur stórkarlalegri en fram kemur á matvörunni, ekki síst meiri en er á landbúnaðarvörum.