Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég skal vera stuttorður. Mig minnir að til sé það máltæki að það sé of seint að iðrast eftir dauðann. Mér finnst að sumir ræðumanna sem koma upp og gagnrýna matarskattinn nú hefðu átt að íhuga það fyrr þegar þeir greiddu atkvæði með honum á sínum tíma og hefðu þá átt að íhuga að það var slæm aðgerð að mínu viti, kannski sú versta sem menn gerðu í þann tíma. Þetta rifjast upp þegar menn koma hér hver á fætur öðrum, sem studdu þetta frumvarp, sem var rangt að mínu viti, en koma nú og telja nauðsyn á að afnema skattinn.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. En mér finnst rétt að rifja svona upp þegar menn koma ... ( GuðnÁ: Þakkaðu fyrir að iðrunin nær út yfir gröf og dauða.) Það kann vel að vera að menn treysti á framtíðarlífið eftir að hafa gert allar vitleysurnar hér. Það kann vel að vera að slíkt kunni að gagnast í framtíðinni. En ég hygg samt að mönnum hefði verið nær að huga að mínum ráðleggingum og aðvörunum í þessum efnum.