Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Sú fsp. sem hér liggur fyrir er með þvílíkum ólíkindum að ég get ekki orða bundist. Í fyrirspurninni er vegið að Rannsóknastofnun landbúnaðarins á þann hátt að óþolandi er með öllu. Í henni er nánast fullyrt að hjá RALA sé ekki unnið á traustum vísindalegum grunni og síðan er nánast skorað á landbrh. að setja einhvers konar rannsóknarrétt yfir þessa mikilvægu rannsóknarstofnun. ( GuðnÁ: Lestu þér til um málið áður en þú talar.) Ég veit ekki hvað vakir fyrir hv. fyrirspyrjanda, en ég hef lengi fylgst með störfum RALA og ég veit að þar er unnið stórmerkilegt starf, m.a. að beitarþolsrannsóknum. Gróðurkortagerð stofnunarinnar er þekkt víða um heim og starfsmenn hennar hafa verið fengnir til starfa erlendis m.a. vegna þess hversu gott orð fer af þessari stofnun. Þessi fyrirspurn er í mínum huga ekkert annað en illa dulin árás á þessa stofnun. Þessa árás skil ég ekki. Hvort hún er af persónulegum toga spunnin eða einhverjum öðrum fæ ég ekki skilið. Ég vildi gjarnan fá það útskýrt hjá hv. þm.