Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Hæstv. forseti. Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir eru mikið til umræðu og hafa verið. Það eru viðkvæm mál og eru til þess lagin að kveikja tilfinningar sem stundum eiga ekki við rök að styðjast ef ekki er fjallað um málin af mikilli þekkingu.
    Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, sem mér þykir fengur að, að það sé ástæða til þess að endurbæta aðferðir og samræma þær vinnureglur sem notaðar hafa verið við þetta mat og ég legg á það áherslu að það er mikil nauðsyn á því að leitast við að þær stofnanir sem að þessu koma, þ.e. Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landgræðsla ríkisins og landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, geti talað einum rómi. En það veikir alla tiltrú almennings á þetta mat ef þessir aðilar, sem teljast eiga meðal sérfræðinga, tala hver í sína áttina. Þessari samræmingu tel ég afar nauðsynlegt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir.
    Ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því að ég tel ástæðu til að vitna til þess að í þessari bók, sem er um landgræðsluáætlun 1974--1978, svokallaða þjóðargjöf, sem unnin var af tiltekinni nefnd sem ég átti sæti í, gerðu tveir nefndarmenn, sá er hér stendur og Þorvaldur G. Jónsson, fyrirvara um að þeir teldu a.m.k. vafasamar þær reglur sem farið væri eftir við beitarþolsmat sem byggjast á erlendri reglu, kanadískri reglu ef ég man rétt, sem fól í sér að þá væri land fullnýtt ef í lok beitartíma að hausti stæðu eftir 50% af uppskeru þeirra beitarplantna sem bestar væru án tillits til þess hvað eftir væri af þeim sem lakari beitarplöntur væru. Þessi fyrirvari kom þá þegar fram og ég held þess vegna að það sé ástæða til að leggja á það áherslu að reglur um matsaðferðir verði samræmdar og allt þetta mál tekið til athugunar eins og hæstv. ráðherra hefur lýst yfir.