Vegaframkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykn. hefur lagt fyrir mig fsp. á þskj. 664 um útboð vegaframkvæmda á Hafnarfjarðarvegi, þ.e. gatnamótanna á Arnarneshæð. Hér er um að ræða endurbyggingu á eystri akbraut Hafnarfjarðarvegar frá Hlíðarvegi í Kópavogi að Arnarneslæk, brúar á Kópavogslæk og vestri akbrautar Hafnarfjarðarvegar um Arnarneshæð, auk þess gerð gatnamótamannvirkja við Arnarnesveg. Hér er sem sagt um allmiklar framkvæmdir á þessu svæði að ræða.
    Því er til að svara að mannvirki þessi eru fullhönnuð og útboðsgögn að heita má tilbúin. Stefnt var að því að hafa útboðsgögn tilbúin um sl. áramót eða í nágrenni við það og þá miðað við að útboð gæti farið fram í framhaldi af því og meginhluta framkvæmdanna yrði lokið á þessu ári og hinu næsta. Í gildandi vegáætlun var þó ekki nægilegt fjármagn til að ljúka þessari framkvæmd. Að baki framkvæmdaáformum þeim sem nefnd voru á undan lágu því hugmyndir um lántökur sem brúað gætu bilið uns fjárveiting fengist. Við lokahönnun verksins, og það verður að segjast eins og er, hefur það einnig orðið nokkru umfangsmeira en ráð var fyrir gert. Hefur m.a. þurft að taka meira tillit til skipulagssjónarmiða en ætlað var. Þetta veldur því að kostnaður hefur aukist lítillega, um ein 5--10% og er fjármögnunin að sama skapi þyngri. Kostnaður er nú metinn nálægt 250 millj. kr. á áætluðu meðalverðlagi ársins 1989.
    Endurskoðun vegáætlunar fer fram á Alþingi á næstu vikum og með hliðsjón af því sem hér á undan hefur verið rakið er talið eðlilegt að bíða með útboð verksins eftir þeirri endurskoðun. Er þá haft í huga að fjármögnun verksins verði endanlega ákveðin í hinni nýju vegáætlun, en eins og áður er getið eru útboðsgögn nánast tilbúin og má því bjóða verkið út með mjög skömmum fyrirvara þegar fjármögnun þess liggur ljóst fyrir samkvæmt þeirri vegáætlun sem nú er unnið að.
    Þessu til viðbótar vil ég svo minna á að samkvæmt þeirri tillögu að vegáætlun sem nú liggur fyrir og er til meðferðar á hinu háa Alþingi er gert ráð fyrir að upp verði tekinn nýr flokkur framkvæmda, svonefndur stórverkefnaflokkur, og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu af þessu tagi er einmitt ætlað að verða eitt af þremur meginviðfangsefnum þess stórverkefnaflokks. Það er von mín og trú að með því fyrirkomulagi gæti komist skriður á þær bráðnauðsynlegu framkvæmdir af þessu tagi og raunar margar fleiri sem bíða þess að ráðist verði í þær á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega ýmis ytri samgöngumannvirki sem tengja byggðakjarnana hér og orðið er mjög brýnt að takast á við, bæði vegna umferðarþungans og þó ekki síður vegna þess að umferðarslys gerast nú allt of tíð af þeim sökum að ekki hefur verið unnt að létta með nógu farsælum hætti þann þunga sem vaxandi umferð á svæðinu veldur.