Jöfnun símagjalda
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fsp. og upplýsi að það var eitt af mínum fyrstu verkum í samgrn. að skrifa Pósti og síma og óska eftir upplýsingum og síðan tillögum frá stofnuninni um það í fyrsta lagi hver væri þessi mismunur og í öðru lagi hvaða áfanga væri hægt að taka til að jafna hann. Jafnframt fékk ég ýmsar upplýsingar um hvernig háttað væri verðlagningu annars vegar á innansvæðis- og hins vegar millisvæðasímtöxtum í nágrannalöndunum. Síðan hefur verið unnið að þessu máli og reyndar kemur það fram eða mun koma fram í svari við skriflegri fsp., sem var borin fram af hv. þm. Birnu K. Lárusdótttur m.a. um jöfnun á símkostnaði, hvernig unnið hefur verið að þessu máli. Ef ég veit rétt hefur því svari þegar verið dreift á hinu háa Alþingi. Alla vega hefur það verið sent til forseta þingsins.
    Í samræmi við kaflann um byggðamál í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, þar sem m.a. er kveðið sérstaklega á um jöfnun símgjalda, hef ég látið undirbúa tillögur um breytingu á gjaldflokkum fyrir símaþjónustu sem felur í sér verulegan áfanga í þá átt að jafna símkostnað í landinu. Þessi tillaga hefur verið kynnt í ríkisstjórn fyrir allmörgum dögum og er nú til frekari meðferðar í ráðuneytinu.
    Samkvæmt tillögunni yrði þannig staðið að þessari jöfnun að skrefum í gjaldflokki I verður fækkað eða sekúndum í hverju skrefi verður fækkað þannig að tíminn verður styttur fyrir hvert skref í gjaldflokki I, þ.e. innansvæðissímtöl, en lengd í gjaldflokkum II og III, þ.e. sekúndum í hverju skrefi sem talið er í gjaldflokkum II og III, verður fjölgað. Með þessu móti færast tekjur til og kostnaðarmunurinn milli langlínusímtala og innanbæjarsímtala minnkar.
    Það er skoðun tæknimanna hjá Pósti og síma að orðið sé tímabært og fyllilega það að við tökum skref í þessa átt og auk þess er jafnt og þétt verið að stækka gjaldsvæðin. Það hefur að sjálfsögðu líka áhrif til jöfnunar og ég geri ráð fyrir að haldið verði áfram á þeirri braut á næstunni þannig að stærri svæði, sem kallast mega þjónustu- eða atvinnusvæði, færist saman undir eitt og sama gjaldskrársvæði. Fleira kemur reyndar þarna til sem unnt er að nota til jöfnunar.
    Ég geri ráð fyrir að þennan áfanga verði unnt að taka mjög fljótlega, hann verði sem sagt tilbúinn til framkvæmda núna á vordögum, og síðan verði hægt að halda áfram á sömu braut. Það er að vísu mat tæknimanna að símkerfi landsins sé ekki enn undir það búið að gera landið allt að einu gjaldsvæði. Það þurfi að miða meira áfram uppbyggingu einkum og sér í lagi stafræna símkerfisins og stafrænu stöðvanna áður en það er hægt. En það er eindregin afstaða mín og hefur ekki farið dult að um leið og símkerfi landsmanna sé tæknilega í stakk búið til þess eigi að gera landið allt að einu gjaldsvæði og það er sú stefnumörkun sem ég mun fylgja í þessu máli.