Jöfnun símagjalda
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að þessu máli er hreyft hér og með þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gefur varðandi þetta efni. Hér er stórt hagsmunamál á ferðinni. Um þetta hef ég ásamt fleirum flutt ítrekað tillögur til þál. hér á Alþingi og það eru skref í þá átt sem hér er verið að taka ef þær tillögur ná fram að ganga sem hæstv. ráðherra nefndi.
    Ég er mjög ánægður með að hann greinir frá því hér að það sé hans stefna að landið allt verði eitt gjaldsvæði. Það er búið að skattleggja notendur langlínu nógu lengi með óhóflega háum símgjöldum og viðurkennt af Pósti og síma að það er í raun um tilfærslu að ræða langt umfram raunverulegan kostnað. Þetta er réttlætismál sem skiptir afar miklu að nái sem fyrst fram að ganga.