Jöfnun símagjalda
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður og athugasemdir sem hér hafa komið fram og þá ekki síst það sem síðast var nefnt af síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Vestf. Ég held að það sé alveg ljóst að fjárfestingarþörfin í hinu íslenska símakerfi er mikil og það er mjög brýnt vegna þess hversu illa elsti hluti kerfisins er nú orðinn á sig kominn og ófær um í raun og veru að anna því álagi sem er á símakerfinu að það verði unnt á sem allra fæstum árum að ljúka tæknivæðingu og uppbyggingu símakerfisins, þar með talið uppbyggingu stafrænna stöðva. Vonandi verður það svo að með tilkomu stafræna kerfisins og hringtengingu landsins með ljósleiðurum á fáeinum árum verði hér gerbylting, ekki bara á símasambandi landsmanna heldur og á öllum möguleikum til gagnaflutnings um landið. Þess vegna er það slæmt að til þess þurfti að koma á yfirstandandi ári vegna aðstæðna að fjárfestingaráætlun stofnunarinnar var verulega skorin niður frá þeim óskum sem þar voru uppi. Það var gert til þess að unnt væri að halda gjaldskrárhækkunum í lágmarki og af ástæðum sem allir þekkja.
    Varðandi það sem spurt var um landsnúmer og möguleikana á því að taka upp landsnúmer hjá opinberum stofnunum og jafnvel fyrirtækjum, þá vil ég svara því til að það er líka til athugunar. Hvað varðar opinberar stofnanir og opinbera þjónustu þarf að taka það mál til meðferðar samhliða fjárlagagerð því að tæknilega séð er auðveldast að koma því þannig fyrir að símakostnaðurinn færist þá um leið yfir á þær stofnanir sem fá landsnúmerin. Þannig er þessu yfirleitt háttað erlendis og mörg stórfyrirtæki sem leggja metnað sinn í að bjóða landsmönnum vítt og breitt góða þjónustu taka sjálfviljug á sig þennan kostnað og setja upp hjá sér á sínum skiptiborðum landsnúmer sem allir landsmenn á hvaða gjaldsvæði sem er geta hringt í án kostnaðar. Það væri virkilega gaman og myndarlegt ef eitthvert íslenskt fyrirtæki og/eða stofnun vildi ríða á vaðið í þessum efnum. Tæknilega séð er í raun og veru ekki ýkja erfitt mál að koma þessu á. Ég mun láta skoða það sérstaklega í beinu framhaldi af þeim áfanga í átt til jöfnunar símakostnaðar sem verður tekinn á næstunni hvernig þessir hlutir standa gagnvart landsnúmerinu.
    Hvenær verði lokið hinni tæknilegu endurnýjun símkerfisins, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði um. Ég get ekki og vil ekki gefa upp ákveðinn árafjölda í þeim efnum, en ég hygg þó að uppsetningu hins stafræna símakerfis og lagningu ljósleiðara, sem eru lykilatriði í þessu sambandi, ætti að takast að ljúka á 3--5 árum ef vel verður að verki staðið og stofnunin fær að ráðast í á hverju ári þær fjárfestingar sem óhjákvæmilegar eru þá til þess að það megi verða að veruleika.