Flutningsgjald á vörum innan lands
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er eins með þessa fsp. að frú Auður Eiríksdóttir lagði hana fram. Fsp. er raunar í tveimur liðum:
,,1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir að afnema flutningsgjald af vöruflutningum innan lands?
    2. Ef svo er, hvar er það mál statt í kerfinu?``
    Það er með þessa fsp. eins og hina fyrri að í stjórnarviðræðunum lögðu mín samtök, samtök sem ég er fulltrúi hér fyrir, höfuðáherslu á þessa þætti. Og þó að það sé talið þarna flutningsgjald skilja allir að þarna er lagt til að á flutningskostnaðinn er lagður söluskattur sem er eins og allir vita 25%.
    Það hefur verið rætt um það mjög á undanförnum árum að það þyrfti að jafna flutningskostnaðinn í landinu. Hér er ekki farið fram á það. Það er farið fram á að söluskattur bætist ekki við flutningskostnaðinn og að landsbyggðarmenn búi við það óhagræði sem af því leiðir. Það er nóg samt. Vöruverðið víðast hvar er svo mikið hærra vegna flutninga út um landið að ég tel það alveg ólíðandi, ekki síst af stjórn sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju að viðhalda þessum söluskatti.
    Ég vona það sannarlega að ráðherrann treysti sér til að upplýsa okkur um að það mál sé líka í athugun og fari að hilla undir lausn þess.