Flutningsgjald á vörum innan lands
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það væri til mikils hægðarauka fyrir samgrh. ef hann væri líka fjmrh., viðskrh. og forsrh. til að leysa þetta mál og svara þessari fsp. Það er í raun svo að hún kemur inn á verksvið margra ráðherra. Ég sem samgrh. er að sjálfsögðu reiðubúinn að svara fyrir það sem að mínu ráðuneyti snýr í þessum efnum og upplýsa það ég veit um framgang málsins hjá öðrum. Hvað varðar hina skipulagslegu hlið samgangnanna er verið að vinna ýmislegt í samgrn. sem einmitt lýtur að því að reyna að lækka flutningskostnaðinn og koma betra skipulagi á flutningakerfi landsmanna, ekki síst út um landsbyggðina. Þar vil ég sérstaklega nefna athugun á endurskipulagningu strandflutninganna, bæði sjóleiðis og landleiðis, og að því er unnið núna af miklum krafti með þátttöku allra skipafélaganna og Ríkisskipa hvort ekki sé unnt að koma þar á mun betra skipulagi og ná niður flutningskostnaðinum að þessu leyti.
    Það er enn fremur verið að vinna í almennu samhengi að skipulagsmálum flutningakerfisins og samgangnanna í heild og undir þeim formerkjum að skoða líklega þróun mála á því sviði og hvernig eigi að byggja hið íslenska samgöngukerfi upp þannig að það geti í framtíðinni, t.d. um næstu aldamót eða í byrjun nýrrar aldar, þjónað mönnum betur með virkari hætti og boðið upp á lægri flutningskostnað m.a. en nú er. Þar er auðvitað um víðtækt skipulagsverkefni að ræða sem ekki verður leyst á einni nóttu en tengist vissulega því máli sem hér er til umfjöllunar.
    Þá veit ég til þess að mál sem snerta flutningskostnað og flutningsgjald af vörum hafa verið til skoðunar í viðskrn. Skattahlið málsins snýr að sjálfsögðu að fjmrn. og skattkerfið, innheimta söluskatts og annað því tengt, er að sjálfsögðu hluti af þessu máli sem skoða þarf.
    Ég er alveg sammála hv. fyrirspyrjanda um að eitt af því óréttláta sem viðgengist hefur í þessu efni eru þau uppsöfnunaráhrif skatts sem að vissu leyti eiga sér stað í gegnum flutningskostnaðinn og koma fram í hinu endanlega vöruverði úti um landið.
    Eitt af því sem fært hefur verið fram sem rök fyrir hinum margnefnda virðisaukaskatti, svo margt sem má nú um hann segja og ætla ég ekki að taka þá umræðu upp hér, er þó það að þar eigi að eyðast eða vera forsendur til að láta hverfa hin margnefndu og illræmdu uppsöfnunaráhrif í söluskattinum. Þá veit ég til þess og svara því að síðustu að á vegum forsrh., sem að sjálfsögðu samræmir störf ríkisstjórnarinnar að byggðamálum, er verið að vinna að ýmsu sem tengist ákvæðum stjórnarsáttmálans og ég geri fastlega ráð fyrir að þetta tiltekna efni sé þar undir eins og reyndar er sérstaklega vikið að í stjórnarsáttmálanum.
    Svo ég víki aftur að þeim störfum sem unnin eru í samgrn. að þessu leyti er ætlunin að tengja hvort tveggja í senn, starf nefndarinnar sem vinnur að endurskoðun strandflutninganna og nefndarinnar sem vinnur að almennum skipulagsmálum samgangna í landinu, þar sem bæði samgöngur og fjarskipti eru

undir, inn í þetta viðfangsefni að svo miklu leyti sem þetta heyrir undir og er á verksviði samgrn.