Úttekt á starfsemi fræðsluskrifstofa
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en þakkað hæstv. menntmrh. fyrir skjót og greið svör og þakka enn fremur fyrir að hér hef ég nú skýrsluna undir höndum og mun ég leitast við að kynna mér efni hennar. Enn fremur þykir mér vænt um að heyra að formönnum fræðsluráða hefur verið send skýrslan og þar með er raunverulega búið að svara þessari fsp. minni. En ég hafði nokkrar áhyggjur af því ef skýrslan mundi halda áfram að rykfalla í skúffum menntmrn. því að ég er sannfærður um að þarna hlýtur að vera mikill fróðleikur sem varðar okkur öll.