Sorpbrennslan á Skarfaskeri við Hnífsdal
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur beint til mín fsp. á þskj. 719 sem hv. þm. hefur nú þegar gert grein fyrir. Hún er í tveimur liðum og er fyrri hluti fsp. svohljóðandi: ,,Er heilbrmrh. kunnugt um að starfrækt er sorpbrennsla án starfsleyfis á Skarfaskeri við Hnífsdal?`` Heilbrmrh. er að sjálfsögðu kunnugt um að þarna er starfrækt sorpbrennsla og að hún hefur ekki fengið starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 390 frá 1985, um starfsleyfi fyrir iðnrekstur sem getur haft í för með sér mengun.
    Með áðurnefndri reglugerð, sem öðlaðist gildi á árinu 1985, eru tekin af öll tvímæli um það að sorpbrennsla og sorpeyðing hvers konar séu fyrirtæki sem ber að afla sér starfsleyfa vegna mengunar. Fram að þeim tíma var slíkur rekstur ekki starfsleyfisskyldur, t.d. var honum ekki ætlað að sækja um starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 164 frá 1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna. Umræddur rekstur í Hnífsdal, sem hófst á árunum eftir 1970, verður því fyrst starfsleyfisskyldur með tilkomu reglugerðarinnar frá 1985. Sú reglugerð byggir á lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem öðluðust gildi 1. ágúst 1982, en í þeim var í fyrsta skipti í íslenskri löggjöf tekið á mengandi rekstri án þess að til þyrfti að koma mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna í skilningi laga um eiturefni og hættuleg efni. Sorpbrennslan í Hnífsdal sótti um starfsleyfi í samræmi við reglugerðina frá 1985 til Hollustuverndar ríkisins sem leggur til að starfsleyfið verði ekki veitt. Ráðuneytið hefur gert bæjaryfirvöldum á Ísafirði grein fyrir því að flest bendi til þess að stöðin fái ekki starfsleyfi þar sem hún uppfylli ekki þau skilyrði sem nauðsynlegt sé að setja um mengunarvarnir fyrir slíkar stöðvar.
    Málin standa því þannig að sorpeyðingarstöðin er rekin án starfsleyfis og á ráðuneytið í þeim vanda að hafna starfsleyfi, sem það hefur reyndar ekki gert formlega, án þess að önnur leið til sorpeyðingar sé tryggð. Ráðuneytið telur það enga frambúðarlausn að urða sorp á landsvæði þar sem sléttlendi er jafnlítið og raun ber vitni. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að finna verði lausn sem getur dugað til frambúðar og að tekið verði upp fullkomnara sorpbrennslukerfi á hentugri stað sem þar að auki tæki tillit til orkunýtingarsjónarmiða. Ráðuneytið hefur lagt á það áherslu við bæjarstjórn Ísafjarðar að sem allra fyrst verði fundin lausn á þessu máli. Er að vænta tillagna bæjarstjórnar um málsmeðferð á næstu dögum.
    Það má kannski skjóta því hér inn í að samkvæmt bréfi frá bæjarstjórninni á Ísafirði, dags. 5. apríl, er óskað eftir formlegu samstarfi við ráðuneytið um að finna lausn á þessu máli. Ráðuneytið hefur nú þegar svarað þessari ósk bæjarstjórans á Ísafirði um það að tilnefna fulltrúa frá ráðuneytinu og Hollustuverndinni til þess að taka á þessum málum þegar í stað. Ráðuneytið mun að þessum tillögum fengnum og samfara þeirri vinnu sem nú er að fara í gang freista

þess í samvinnu við bæjaryfirvöld og Hollustuvernd ríkisins að leysa málið, en það getur hins vegar tekið nokkurn tíma, þannig að íbúar Hnífsdals sem orðið hafa fyrir óþægindum verða að sýna biðlund í trausti þess að lausn finnist sem allra fyrst. Tafarlaus lokun sorpeyðingarstöðvarinnar kemur að mati ráðuneytisins ekki til greina nema hægt verði að leysa málið í millitíðinni, þ.e. með urðun á viðurkenndum stað. Það er einn af þeim millibilskostum sem ráðuneytið mun ræða við bæjaryfirvöld á Ísafirði á næstu dögum.
    Að lokum skal tekið fram að ráðuneytið hefur verið í sambandi við þá íbúa Hnífsdals sem hér eiga hlut að máli og hefur fullan skilning á sjónarmiðum þeirra. Ráðuneytið hefur jafnframt farið þess á leit við þá að þeir sýni biðlund enn um sinn, þótt vitanlega kunni það að vera erfitt miðað við þá starfsemi sem hér um ræðir, í trausti þess að lausn finnist á málinu sem allra fyrst. Það er skoðun ráðuneytisins að betra sé að finna frambúðarlausn sem allir geti sætt sig við en skammtímalausn, ekki síst þegar haft er í huga að þessi starfsemi hefur verið í gangi í 17 ár. Nú er það út af fyrir sig ekki réttlæting, heldur bara sýnir fram á það að málið er ekki einfalt að leysa.
    Ég tel að með þessu sé ég þá einnig búinn að svara síðari hluta fsp. þar sem spurt er um það til hvaða aðgerða ráðherra muni grípa vegna þessa máls og hvenær. Saga málsins er sem sagt þessi og eftir að ráðuneytinu bárust undirskriftirnar sem fyrirspyrjandi vitnaði til höfum við haft samband við forsvarsmenn þeirrar undirskriftasöfnunar og sent þeim skriflegt erindi, dags. 28. febr., þar sem beðið er um það að þeir sýni nokkra biðlund á meðan reynt er að finna lausn á málunum, en sú vinna er nú þegar í gangi.