Sorpbrennslan á Skarfaskeri við Hnífsdal
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þessi fsp. er greinilega tímabær og það hefur þegar komið fram hjá hæstv. ráðherra að viðbrögð hafa orðið vegna þessarar fsp., miðað við þær dagsetningar sem hér voru nefndar um samskipti ráðuneytis og heimaaðila. Hér er auðvitað við vanda að fást og ég legg ekkert mat á hversu auðleysanlegur hann er miðað við frambúðarfyrirkomulag sorpeyðingar á þessum stað. En þetta minnir á það að mjög víða eru þessi mál í ólestri og það er þörf á því að ráðuneyti heilbrigðismála og yfirstjórn mengunarmála í landinu veiti þarna meiri stuðning og aðhald við þá aðila heima fyrir sem eiga að sjá um þessi mál. Hið formlega starfsleyfi er í hendi ráðuneytisins og það leggur ráðuneytinu ábyrgð á herðar sem það þarf að bregðast við með meiri ráðgjöf, aðhaldi og eftirliti. Þetta gildir um hvers kyns mengun sem heilbrigðisnefndir og sveitarstjórnir eiga að fást við einnig frá loðnubræðslum sem er ein af þessum tilfinnanlegu mengunaruppsprettum sem hrjá ýmsa staði á landinu enn í dag.