Sorpbrennslan á Skarfaskeri við Hnífsdal
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það verður víst ekki hægt að rengja það að á tímum bænaskjala og leyfa er svo komið fyrir Vestfirðingum að þeir ráða því ekki sjálfir hvernig þeir standa að því að brenna sitt rusl. Það er miðstýringarvaldið sem ræður því og bréf að sunnan verður að berast svo að heimilt sé að brenna rusl vestra.
    Ég fagna því að hæstv. ráðherra hyggst ekki skilyrðislaust loka brennslunni þar til lausn er fengin því ella ættu þeir varla annan kost en að senda honum sorpið með Ríkisskipum og hann yrði þá að sjá um að koma því fyrir. Mér finnst nefnilega, þegar þessi mál eru rædd, að ekki sé horft á þá staðreynd að þegar þessi stöð var byggð á sínum tíma var hún byggð samkvæmt íslenskum lögum og það var ekkert í þeirri starfsemi sem stangaðist á við þau. Þarna liggja veruleg verðmæti. Er ríkið reiðubúið að bæta þau um leið og það fer fram á það við þau sveitarfélög sem þarna eiga hlut að máli að brennslan verði lögð niður?
    Mér er kunnugt um það að þessi sveitarfélög hafa m.a. verið að koma sér upp sjúkrahúsi með ríkinu og fjárhagsstaða þeirra er ekkert of sterk. Ég varð ekki var við það að Hollustuvernd ríkisins færi af stað og lokaði gamla sjúkrahúsinu þrátt fyrir það að með jafnstrangri naflaskoðun hefði mátt segja með sanni að það eru nokkuð mörg ár síðan hefði verið eðlilegt að gera það. Ég hef heldur ekki frétt af fósturláti eða krabbameini vegna þessa. Mér finnst hreint út sagt að menn séu hér að mikla hlutina fyrir sér sem heimamenn hafa nú þegar ákveðið að reyna að leysa jafnfljótt og hægt er og jafnvel og hægt er með hagsmuni allra íbúanna að markmiði, jafnt þeirra sem búa í Hnífsdal og annarra.