Loftmengun á höfuðborgarsvæðinu
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur borið hér fram fsp. á þskj. 723 sem hann hefur nú gert grein fyrir. Þar er í fyrsta lagi spurt um hvaða niðurstöður liggi fyrir úr mælingum á loftmengun á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár.
    Fyrir þremur árum hóf Hollustuvernd ríkisins reglubundnar mælingar á loftmengun í Reykjavík. Þessar mælingar hafa til þessa verið takmarkaðar við fallryk og svifryk ásamt lítils háttar efnagreiningum á hvoru tveggja. Niðurstöður sýna ótvírætt að loftmengun af völdum þessara þátta er töluverð og meiri en fyrir fram var búist við.
    Af fyrirliggjandi niðurstöðum má ráða að loftmengun hefur farið vaxandi í samræmi við fjölgun ökutækja, en á þessu tímabili hefur ökutækjum fjölgað stórlega. Þessi aukning er fyrst og fremst í svifryki, en það er heilsufarslega töluvert hættulegra en fallryk. Stærstur hluti svifryksins er talinn koma frá umferðinni, en fallrykið er fremur af náttúrlegum völdum. Sé miðað við þau mörk sem Hollustuvernd ríkisins hefur gert tillögu um sem viðmiðunarmörk fyrir Ísland og tekin verður endanleg afstaða til við útgáfu mengunarvarnareglugerðar á næstu vikum mældist svifryk á fyrsta hluta mælitímabilsins, miðað við ársmeðaltal, 67% af þeim mörkum, en hefur síðan vaxið um og upp yfir 90%. Þess skal þó getið að viðmiðunarmörk Hollustuverndar eru mjög ströng. Hinu má heldur ekki gleyma að mjög margir umhverfisþættir hafa áhrif á niðurstöðuna þannig að mæla þarf í lengri tíma til að unnt sé með fullri vissu að staðhæfa að loftmengun sé komin á þetta stig. Töluverð blýmengun hefur mælst í svifrykinu, en úr henni hefur dregið verulega á seinni hluta mælitímabilsins. Það á sér eðlilegar skýringar þar sem nú er unnt að fá blýlaust bensín. Samkvæmt síðustu samantekt hefur dregið úr blýmengun sem nemur u.þ.b. 40% sem er í samræmi við markaðshlutdeild blýlauss bensíns á höfuðborgarsvæðinu.
    Í öðru lagi er spurt hvað skorti á að fullnægjandi mælingar séu gerðar á loftmengun á þessu svæði. Hollustuvernd ríkisins telur að ekki sé nægjanlegt að gera mælingar á ryki ásamt efnagreiningum á því til þess að meta loftmengun. Frá umferðinni kemur einnig mikið af mengunarefnum í öðru formi lofttegunda. Þær helstu eru köfnunarefnisoxíð, kolmónoxíð, brennisteinsoxíð og kolvetni og telur stofnunin nauðsynlegt að framkvæma mælingar á styrk þessara lofttegunda jafnhliða því sem haldið verði áfram mælingum á rykmengun.
    Stofnuninni hefur ekki reynst unnt að hrinda þessu í framkvæmd vegna þess að engin fjárveiting hefur fengist til þessara mengunarmælinga og kostnaður verður ekki greiddur af knöppu rekstrarfé mengunarvarna eins og gert hefur verið í sambandi við núverandi mælingar. Rétt er að benda á að á vegum Reykjavíkurborgar hefur verið heimilað að kaupa búnað til mengunarmælinga fyrir heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem nemur milljónum

króna og er viðbúið að með því taki heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur frumkvæði í þessum mælingum.
    Viðbótarkostnaður vegna mælinga á áðurnefndum lofttegundum er áætlaður um 2 millj. kr. á ári sem er eingöngu kostnaður vegna efnagreininga, en þær er allar hægt að framkvæma á innlendum rannsóknastofum. Hollustuvernd ríkisins telur sérstaklega mikilvægt að samfelldar mengunarmælingar á lofttegundum á einum völdum mælistað hefjist sem allra fyrst vegna þess að fyrirsjáanlegt er í samræmi við norræna umhverfisáætlun sem Ísland er aðili að að innan fárra ára verður byrjað að búa bifreiðar hér á landi lofthreinsibúnaði. Lofthreinsibúnaður sá sem um ræðir virkar svo til eingöngu á áðurnefndar lofttegundir. Auk þess mun blýmengun hverfa þar sem nauðsynlegt verður að nota eingöngu blýlaust bensín.
    Til þess að geta metið hvaða áhrif mengunarvarnabúnaður á bifreiðar hefur þarf að mæla áðurnefndar lofttegundir og þyrfti að hefja þær mælingar helst sem fyrst, ekki síst þegar haft er í huga að þessar mælingar taka nokkurn tíma eigi að fást öruggar niðurstöður.
    Í þriðja lagi var spurt: ,,Hvaða aðgerðir eru í undirbúningi til að draga úr loftmengun á þessu svæði?``
    Í norrænni umhverfismálaáætlun sem samþykkt var af umhverfismálaráðherrum Norðurlanda í janúar sl. er gert ráð fyrir því að öll Norðurlönd setji svo fljótt sem unnt er útblástursmörk vegna bifreiða. Undirbúningur er þegar hafinn hér á landi og hefur ráðuneytið beðið Hollustuvernd ríkisins um tillögur í málinu. Gert er ráð fyrir því að slíkar aðgerðir muni sérstaklega hafa áhrif á loftgæði á höfuðborgarsvæðinu. Á næstu dögum er ætlan ráðuneytisins að staðfesta mengunarvarnareglugerð sem gefin er út með stoð í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en í reglugerð þessari, sem upphaflega var unnin af stjórnskipaðri nefnd og síðan af starfsmönnum ráðuneytisins og Hollustuverndar í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir, verður væntanlega tekin afstaða til ýmissa atriða sem snerta viðmiðunarmörk vegna mengunar, ekki síst loftmengunar.