Loftmengun á höfuðborgarsvæðinu
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég hélt að ég hefði kannski svigrúm til að gera aðeins meira en örstutta athugasemd. Ég hef talað einu sinni. ( Forseti: Ég vil aðeins minna hv. þm. á að hann veitti forseta ákúrur í morgun fyrir að vera of rýmileg um tíma. En að sjálfsögðu vill forseti láta hv. þm. njóta sama réttar og var veittur í morgun svo að forseti mun vera liðlegur með tímamörk.) Virðulegur forseti. Ég áskil mér að ræða þingsköp hér á eftir.
    Ég ætla að víkja að svari hæstv. ráðherra. Ég þakka honum fyrir svörin og veittar upplýsingar og tel að það sem þar kom fram hafi verið athyglisvert, bæði varðandi ástand mála, varðandi loftmengun hér og þær mælingar sem farið hafa fram, en ekki síður um það sem á vantar. Ráðherrann upplýsti að það skortir verulega á að hægt sé að framkvæma hér mælingar á efnasamböndum. Í rauninni er hér mælt aðeins ryk, fallryk og svifryk, en sáralítið af efnum sem ekki koma fram við slíkar mælingar. Þetta er ekki viðunandi ástand mála og minnir okkur á hv. Alþingi á að það þarf að sinna þessum málum í sambandi við fjárveitingar. Það gengur ekki að ekki sé hægt að fylgjast með ástandi svo þýðingarmikilla þátta eins og loftsins sem við öndum að okkur vegna þess að það skortir nokkrar milljónir til að kaupa tæki og fylgjast með ástandi mála. Ég heiti á hæstv. ráðherra að vera sókndjarfan í sambandi við óskir um fjárveitingar og ég mun veita honum það liðsinni sem ég get hér á Alþingi til að hægt verði úr að bæta.
    Ég bendi á hversu nauðsynlegt er að afla þessara upplýsinga einnig á meðan ástandið er í þeirri stöðu sem nú er til að fá viðmiðun um þann árangur sem fæst með aðgerðum.
    Ég heyri sagt að Bifreiðaskoðun Íslands sinni því miður ekki málum með þeim hætti sem vera skyldi og vonir stóðu til um að athuga um ástand bifreiða miðað við útblástur. Þar þyrfti að verða bót á til þess að fá þessar upplýsingar við að styðjast vegna framtíðarinnar.
    Ég treysti því að hæstv. ráðherra fylgi eftir þeirri reglugerð sem hann boðaði að sett yrði um þessi efni og leitist við að ná árangri, en vissulega er það víðar en á Reykjavíkursvæðinu sem þessi mál eru í ólestri þó að fsp. beindist að því svæði sérstaklega.